Í dag var hátíðisdagur og listaverkasafn skólans tók stökk í átt að verðmætasta málverkasafni í eigu grunnskóla á Íslandi. 

Víðir Mýrmann einn þekktasti og virtasti listmálari landsins gaf stórt olíumálverk til Grunnskólans í Hveragerði. Mýrmann bæði býr og starfar í Hveragerði. Verkið heitir Litróf lífsins og er olía á hör. 180 x 180 cm. Gjöfin er bæði þakklætisvottur fyrir stuðninginn frá skólanum og Hveragerðisbæ í gegnum árin. Aðallega er gjöfin hugsuð sem hvatning fyrir æsku landsins. 

Mýrmann sagði við afhendingu verksins: „Öll vitum við að mennt er máttur, menntun opnar dyr og ólík tækifæri. Það sem skiptir samt mestu í námi og lífinu í heild sinni, er að standa með sjálfum sér, láta sig dreyma, hafa trú og von í hjarta, og láta ekkert stoppa sig í að ná takmörkum sínum. Við getum orðið allt sem við viljum, öll erum við ólík, með mismunandi áhugamál og skoðanir, en öll erum við frábær og höfum rödd, sem við getum notað í litrófi lífsins. Lífið er regnbogi, með mörgum mismunandi tónum, þar sem hver litur skiptir máli og allir þjóna þeir tilgangi, allir litirnir eru fallegir með sína sögu og hafa tilgang, eins og hvert barn hefur tilgang og skiptir miklu máli. Ég vil, ég get, ég skal.

Nemendur í 1. bekk ásamt Sævari Þór skólastjóra og Víði Mýrmann listmálara

Facebook ummæli