Æfingar standa nú yfir hjá Leikfélagi Hveragerðis á farsanum Nei Ráðherra eftir konung gamanfarsanna Ray Cooney. Þetta verk kannast eflaust margir við en það var sett upp í Borgarleikhúsinu leikárið 2010-2011 og naut mikilla vinsælla.

Verkið fjallar um ungan ráðherra sem þarf að ljúga sig út úr allskonar vandræðalegum aðstæðum og notar til þess ungan aðstoðarmann sinn. Sá verður alltaf meira og meira vafinn inn í lygavef ráðherrans og veldur sprenghlægilegum aðstæðum sem krefjast enn meiri lyga.

Örn Árnason leikstýrir verkinu og með helstu hlutverk fara Elín Hrönn Jónsdóttir, Hafþór Vilberg Björnsson, Steindór Gestsson og Ingberg Örn Magnússon. Áður hefur leikfélagið sýnt tvö verk eftir Cooney, Með vífið í lúkunum var sýnt árið 2013 og Tveir Tvöfaldir árið 2018. Æfingar hófust í byrjun mars og hafa gengið alveg ágætlega miðað við aðstæður en áætlað er að frumsýna verkið um miðjan maí.

Hvergerðingar geta nú farið að láta sér hlakka til að sjá þennan drepfyndna gamanleik en Krumminn smellti af nokkrum myndum á æfingu gærkvöldsins. Þetta verður aldeilis fjör.

Facebook ummæli