Meðfylgjandi mynd tók ég í garðskálanum á Reykjum í Ölfusi árið tvöþúsund og ekki mjög mikið, kannski níu. Virðingartitillinn: “Umsjónarmaður fasteigna á Reykjum” fylgdi mínu starfi þá, þó að Björgvin frændi minn af Syðri- Víkurkyni hafi ævinlega talað um: “gangavörðinn”, eða bara: “vörðinn”.

Það er mikill pappakassi sem ekki tekur Garðyrkjuskólann á Reykjum næst sínu hjarta fái hann tækifæri til, þar eru töfrar við hvert fótmál og hafa verið undanfarin áttatíu ár. Þar hafa garðyrkjufræðingar þessa lands numið sín fræði og sinnt rannsóknarstörfum öll þessi ár, við sérhannaðar aðstæður. Vissulega hafa komið tímabil í sögu skólans þar sem aurar til framkvæmda við húsakost, aðstöðu og allt mögulegt hafa verið af skornum skammti og stundum skapað ákveðin vandræði, en eldmóðurinn er enn á meðal okkar fyrr- og núverandi nemenda og starfsmanna; við brennum fyrir okkar gamla skóla og stöndum saman þegar á hann er hallað.

Og svo sannarlega er á hann hallað nú um stundir. Þannig er nefnilega að Reyki í Ölfusi og nám og rannsóknir í garðyrkju er algjörlega galið að skilja að eins og nú stendur til að gera; þar eru lifandi tilraunir út um allt, þar eru Systurnar Þrjár, þar er Fífilbrekka, þar er Tilraunahúsið, hjarta íslenskra garðyrkjurannsókna, þar er Pottaplöntuhúsið, þar er Fjósið, hið eina sinnar tegundar byggt í Funkis- stíl, þar er Byggingin blessuð með sínum jarðskjálftasprungum, þar er Pakkhúsið, þar er Bananahúsið sem á erindi á Heimsminjaskrá Unesco að mínu viti, enn er þar ræktað sama bananayrki og í upphafi fyrir mannsaldri síðan, þar er Smiðjan, hvar bestu og verstu sögur í Sunnlendingafjórðungi hafa verið mæltar af munni fram og um ekki ómerkari hluti en kjarnorkusól og geislavirka ísótópa, þar er Eldhúsið hvar Sveina hélt í mér líftórunni, þar er Blómaskreytingastofan þar sem gyðjur svifu yfir gangstéttahellum og sveipuðu staðinn lykt og lífi. Þar er miklu meira og fleira.

Og þar kviknar lífið fyrst á vorin eins og myndin sýnir, tekin í mars og allt þakið snjó utandyra. Endilega reynið ykkur við að greina blessað blómið, það gæti komið á óvart.

Ég get víst ekki skreytt mínar skrifstofudyr lengur með titlinum: “Umsjónarmaður fasteigna á Reykjum”, en mér hefur ekki verið sagt upp gangavarðarembættinu með formlegum hætti og kem því hérmeð á framfæri að allur helvítis fíflagangur og vitleysa á staðnum er stranglega harðbannaður að viðlögðum flengingum, raflostum og stólpípu, þetta er Garðyrkjuskóli Íslands, heyrið það!

Góðar garðyrkjustundir.

Facebook ummæli