Nú eru ævintýranámskeiðin í fullum gangi í Hveragerði og má sjá brosandi, skoppandi krakka í hópum setja svip sinn á bæinn og allt í kring. Það eru algjör forréttindi að hafa svona dásamlega náttúru í bakgarðinum og njóta börnin sín vel í dagskránni sem fer mikið til fram utandyra. Bungubrekku ævintýranámskeiðin einkennast af útiveru, hreyfingu, lýðheilsu, vináttuþjálfun og sjálfstyrkingu. Krökkunum er skipt í þrjá hópa og hver hópur hefur sér áherslur sem samræmast aldri og þroska þátttakenda. Sömuleiðis eru yngstu börnin undirbúin undir fyrsta skólaárið þeirra sem er framundan.
Krakkarnir fá að spreyta sig í allskonar leikjum, íþróttum og listgreinum. Fara í lautarferðir, ratleiki, gönguferðir og gera ýmislegt sem hentar hverju sinni.


Alþjóðlegi Ólympíudagurinn haldinn hátíðlegur um allan heim í gær og í tilefni hans ákvað ÍSÍ að halda hátíðina í Hveragerði að þessu sinni. Fulltrúar Íþrótta- og ólympíusambands Íslands, ásamt Blossa lukkudýri ÍSÍ, mættu í Lystigarðinn með allskonar leiki og þrautir og tóku krakkarnir á ævintýranámskeiðinu auðvitað þátt í fjörinu með hjálp unglinga úr vinnuskólanum.

Starfið í Bungubrekku er sérstaklega metnaðarfullt og hefur vakið mikla athygli fyrir hvernig það er að byggjast upp. Og sömuleiðis fyrir jákvæðar breytingar sem hafa orðið síðasta ár í samstarfi við krakkana sjálfa, starfsfólk og foreldra.

Gæðaviðmiðin eru á rafrænu lifandi formi i daglegu starfi Bungubrekku.

Ingimar Guðmundsson tómstunda- og félagsmálafræðingur flutti erindi um gæðaviðmið og þróun gæðastarfs á Bungubrekku, á kynningu á vegum Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og menntavísindasviði Háskóla Íslands fyrir skömmu. Þar fjallaði hann um það hvernig starfsfólk Bungubrekku hefur nýtt útgáfu gæðaviðmiða frístundaheimila til þess að þróa faglegt gæðastarf. Erindið má sjá hér og hefst á 35. mínútu.
Foreldrar og forráðamenn sem voru með börn í skólaseli í vetur, eru hvattir til að taka þátt í könnuninni sem var send til þeirra með tölvupósti í lok skólaársins til að hægt sé að gera enn betur.

Bungubrekka er með instagram síðu þar sem hægt er að fylgjast með starfinu í fallegum myndum. Þar sést vel hvað náttúran kemur mikið við sögu í degi barnanna á námskeiðinu.

Facebook ummæli