Var talsvert veikur í lok síðustu viku.  Verulega kvefaður, með mikinn hósta og stíflaður.  Svaf lítið vegna þessa.  Var með engan hita en datt svo sem í hug að það væri fræðilegur möguleiki á að ég væri með covid 19.  Fannst það verulega ólíklegt en verandi í þeirri vinnu sem ég er í, fannst mér skynsamlegt að fara í sýnatöku vegna covid 19.  

Sendi beiðni um fjögurleytið aðfaranótt laugardags um að fá að fara í sýnatöku.  Allt gert í gegnum www.covid.is. Og þegar ég get gert svona á alnetinu þá geta það nær allir aðrir.  Hef eina í huga sem þyrfti aðstoð, ekki nánar út í það.  Ég fékk síðan sms og tölvupóst með leiðbeiningum hvernig ég ætti að haga mér ásamt strikamerki sem ég gat prentað út og tekið með mér í sýnatökuna.  Er ekki með snjallsíma þannig að ég gat ekki verið með strikamerkið í símanum. Tíminn var 13.45 – 14.00 á laugardeginum að Suðurlandsbraut 34, gamla Orkuhúsið.

Alda skutlaði mér svo í bæinn á laugardeginum og ég stökk inn með grímu.  Fékk spritt í hendur og skannaður miðinn.  Tók með mér sýnatökuglas eftir skönnunina og fór inn í næsta herbergi þar sem vígbúinn starfsmaður tók sýnið.  Einhverjir hafa sagt þetta vera óþægilegt eða vont, fannst það bara alls ekki.  Minnsta mál í heimi.  Var búinn innan fimm mínútna með allt ferlið.

Fékk síðan niðurstöðu um kvöldið í gegnum www.heilsuvera.is þess efnis að ég hefði fallið á prófinu, það er að ég var ekki með covid 19.  Eina prófið sem ég man eftir að hafa verið glaður með að falla á 😊

Allt skipulag og ferlar við sýnatöku sem þessa er algjörlega til fyrirmyndar.  Þetta er auðvelt, fljótlegt og kostar ekki neitt.

Ég skora á alla sem finna fyrir einhverjum flensueinkennum, alveg sama þó þau virðist vera saklaus, að fara í svona covid 19 próf.  Og helst að falla á því.  En ef einhver nær aftur á móti prófinu og er smitaður, þá er auðvitað lykilatriði að vita af því og minnka þannig hættuna á því að smita aðra.

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Facebook ummæli