FEBH var stofnað 27. febrúar 1983. Fyrstu árin bjó félagið við sífellt húsnæðisleysi. Sagan segir að helsta eign þess hafi verið koffort sem Brynhildur Jónsdóttir gaf og var borið á milli hinna ýmsu staða þar sem húsaskjól fékkst til að halda fundi. Straumhvörf urðu í starfsemi félagsins eftir að Þorlákur Kolbeinsson arfleiddi félagið að öllum eigum sínum, jörðinni Eystri Þurá í Ölfusi með áhöfn og öllum öðrum eigum hans, en hann lést 22. mars 1997. Þorlákur var ekkjumaður og barnlaus. Eftir að arfleiðinni hafði verið komið í verð, var fjárhagur félagsins orðinn það rúmur að grundvöllur hafði myndast fyrir kaupum á húsnæði fyrir félagsheimili. Að undangenginni vandlegri skoðun á fyrirliggjandi kostum var ákveðið að festa kaup á hluta efri hæðar í nýbyggingu að Breiðumörk 25b. Seinna var húsnæðið stækkað með viðbótar rými á hæðinni. Á almennum félagsfundi 13. Jan 2002 var samþykkt að gefa félagsheimilinu nafnið Þorlákssetur. Önnur heiti sem komu til greina voru Þorláksstofa, Þorláksbúð, Vinaminni og Uppsalir. Séra Jón Ragnarsson vígði húsið laugardaginn 1. desember 2001 með viðhöfn, ávörp voru flutt og  kærkomnar gjafir bárust félaginu. Arfurinn var mikil lyftistöng fyrir félagið.

Í gildi er þjónustusamningur milli Félags eldri borgara og Hveragerðisbæjar þar sem við tökum á okkur þá skyldu að sinna félagsstarfi fyrir þennan aldurshóp meðal annars með því að reka félags og tómstundaaðstöðu fyrir eldri borgara í Hveragerði, hlúa að hverskonar áhugamálum eldri borgara í Hveragerði með skipulagningu námskeiða, hópavinnu,tómstundavinnu, ferðalög, leikhúsferðir, árshátíð og þorrablót og stuðla að líkamsþjálfun og útivist eldri borgara. Fyrir þetta fær félagið árlega fjárupphæð. Auk þess greiðir bæjarfélagið fastan rekstrakostnað af félagsheimilinu. Við fáum einnig afnot af handavinnuhúsi Grunnskólans og af Hamarshöll.

Félagið stendur fyrir öflugu félagslífi í bland við fjölbreytta hreyfingu, sundleikfimi, stólaleikfimi, línudans, gönguhóp, pútt, boccía, heilsuátak í samvinnu við Hveragerðisbæ vor og haust í Hamarshöll með þjálfara. Félagið hefur vakið athygli fyrir öfluga starfsemi og 17. Júní 2019 var félaginu veitt Menningarverðlaun Hveragerðisbæjar og tók stjórn FEBH við þeim með stolti fyrir hönd allra sem á undan hafa gengið.

Jóhann Gunnarsson tók saman sögu FEBH í tilefni 30 ára afmælis félagsins 2012 söguna má lesa á spjöldum sem hanga á veggjum Þorláksseturs. Þessi stutta kynning er hluti af þeirri sögu.  

Tekið saman af:  Kristín Dagbjartsdóttir varaform FEBH.

Hressir eldri borgarar í þriðjudagsgöngu.

Facebook ummæli