Ég fékk á dögunum beiðni um að gerast pistlahöfundur fyrir Héraðsblaðið Krummann hérna í Hveragerði frá ritstjóra, blaðamanni, ljósmyndara og eiganda fjölmiðilsins. Það er nú reyndar einn og sami aðilinn en engu að síður var ég mikið uppi með mér og hugsaði með mér að loksins fengi ég tækifæri og vettvang til að ausa yfir bæjarbúa úr óþrjótandi viskubrunni mínum á minn einstaka hátt. Það væri augljóst að eftirspurn væri eftir minni alkunnu ritsnilld í mínum einstaklega hógværa og minemalíska stíl.

Án nokkurrar umhugsunar þáði ég boðið og gerði mér í hugarlund að ég gæti orðið málsmetandi maður í samfélaginu sem rýndi með skarpskyggnum augum í öll lög samfélagsins og benti fólki hvar fílinn í stofunni væri að finna. Ég væri sem hið alsjándi auga sem myndi veita aðhald og taka á málum með festu. Ég myndi stinga á kýli hér og þar og þar sem bróðir minn litli er nú þjóðþekktur fréttamaður og fékk verðlaun einu sinni sem rannsóknablaðamaður ársins,  þá myndi ég sem stóri bróðir alltaf getað toppað hann, þannig virkar samband á milli bræðra. Stóri bróðirinn á að vera betri í öllu. En það er nú yfirleitt ekki raunin og einmitt þannig í mínu tilfelli. Ég væri sennilegast ekki auðfúsu gestur á skjám landsmanna kvöld eftir kvöld. Ekki svona útlítandi.

Þá er bara að hefjast handa og setjast niður og skrifa um eitthvað.

Það bara gerist ekkert. Mér dettur bara ekkert sniðugt í hug. Það er sama hvað ég rembist. Allt stíflað. Ritstíflað. Nú fatta ég af hverju þetta kallast fastur penni…

Þorsteinn T. Ragnarsson

Facebook ummæli