Á sumardaginn fyrsta vorið 2019 fagnaði Garðyrkjuskólinn að Reykjum 80 ára starfsafmæli sínu. Fjöldi gesta fór fram úr öllum væntingum og áhugi gesta á öllum aldri var mikill enda á skólinn sér langa og merkilega sögu. Á haustönn 2020 sló aðsókn í nám öll met, en nú stunda um 140 nemendur frá öllum landshornum nám við skólann. Framtíðin ætti því að vera björt? Það kom því mörgum að óvörum þegar búið var að skipa starfshóp til undirbúnings flutnings starfsmenntanáms í garðyrkju frá Landbúnaðarháskóla Íslands til Fjölbrautaskóla Suðurlands þar sem fulltrúar frá LbHÍ, SFu og fulltrúi Mennta- og menningarmálaráðherra en enginn af kennurum eða öðru starfsfólki starfsstöðvarinnar að Reykjum, á þar sæti.
Breytingartillöguna má nálgast hér á vefsíðu LbHÍ.

Gestir spóka sig um á Reykjum.
Mynd – Helena Stefánsdóttir                                                        

Grænn lífsstíll eða gömul úrelt rómantík.
Grænn lífsstíl, hollusta og sjálfbærni hefur aldrei verið meira í umræðunni en nú. Heimsfaraldur og yfirvofandi vöruskortur hefur fært okkur nær þeirri staðreynd að æskilegra væri að geta ræktað sem mest hér heima. Við höfum endurnýjanlega orkugjafa, landsvæði, hugvit og óendanlega möguleika. Sé rétt að málum staðið hefur Garðyrkjuskólinn á Reykjum allar forsendur til þess að vera sjálfbær og sjálfstæð stofnun sé vilji fyrir hendi. Framþróun felist ekki í því að henda út því gamla eins og úrsérgenginni rómantík. Þar glatast þekking og reynsla sem gengið hefur frá einni kynslóð til annarrar. Þannig væri hringrásin og tengingin við náttúruna rofin. Fólk úr öllum áttum hefur stigið fram og vakið máls á neikvæðum áhrifum fyrirhugaðra breytinga.

Gjafir fjarlægðar
Ekki er að sjá að allir stefna í sömu átt hvað varðar framtíð Garðyrkjuskólans á Reykjum.
Í samvinnu við menntamálaráðuneytið hefur stjórn LbHÍ unnið drög að því að Garðyrkjuskólinn verði færður frá LbHÍ yfir til FSu á Selfossi og margir undrast einhliða ákvarðanir rektors LbhÍ. Nemendur skólans segja að í gangi sé illa ígrundaður undirbúningur sem þjóni ekki hagsmunum skólans né nemenda. Í gegnum tíðina hefur fjármagn ekki skilað sér til viðhalds og uppbyggingar skólans, fjöldin allur af stöðugildum horfið og tækjum og tólum sem skólanum hefur verið færður af velunnurum skólans verið teknir og færðir upp á Hvanneyri. Þó má geta að loksins hefur skólahúsið sjálft verið í endurnýjun eftir alvarlegt foktjón á síðasta ári.

Orkídeu verkefnið
Til stendur að fyrirtæki óháð skólanum yfirtekur mikilvæg gróðurhús en nemendur segja að ekkert samráð hafi verið haft við Garðyrkjuskólann um áætlanir að nýta eina mikilvægustu gróðrarstöð nemenda, tilraunahúsið fyrir aðila utan úr bæ er tengist skólanum eða starfseminni ekki á  nokkurn hátt.

Lilja Alfreðsdóttir og Þórarinn Sólmundsson ræða við nemendur Garðyrkjuskólans um fyrirhugaða tilfærslu Garðyrkuskólans úr LbHÍ.
Mynd – Helena Stefánsdóttir

Ástæða þessarar ákvörðunar er sögð hagræðing og sparnaður í rekstri húsakost á Reykjum. Hafa nemendur bent á að hægt sé að draga úr rekstrarkostnaði með því að virkja nemendur til að koma að umhirðu gróðurhúsa og lóðarinnar sjálfrar enda sé umhirða og viðhald gróðurhúsa hluti af starfsnáminu og því kjörið tækifæri til að nýta hluta af því starfsnámi heima í skólanum sjálfum. Grein um Orkídeu verkefnið í Bændablaðinu.

Hvar á garðyrkjunámið heima spyr Berglind Ásgeirsdóttir?
Tæplega tvö ár eru nú liðin frá því að hagsmunafélög garðyrkju á Íslandi óskuðu formlega eftir því að samráð yrði haft um stefnu, mótun og styrkingu starfsmenntanáms í garðyrkju. Tryggja þyrfti framtíð námsins, án togstreitu milli skólastiga og að framtíðarsýn yrði skýr og fagleg. 

Ákvarðanir yrðu teknar í raunverulegu samráði við þá sem starfa við fagið, enda er það þar sem nemendur fara til verknáms og til starfa að námi loknu.

Nú berast óljósar fréttir af tilfærslu starfsmenntanáms í garðyrkju frá Landbúnaðarháskóla Íslands (LBHÍ)  til Fjölbrautaskóla Suðurlands (FSu) og enn og aftur er aðkoma eða samráð við atvinnulífið ekkert. Erindum um samráð og óskum um fundi er einfaldlega ekki svarað.  

Berglind Ásgeirsdóttir, skrúðgarðyrkjumeistari og formaður Samtaka garðyrkju- og umhverfisstjóra sveitarfélaga.     
Mynd – aðsend
                                                                                                                              

Berglind segir einnig:
„Málið er ekki einfalt og ekki einhver ein „ástæða“ og margt uppsafnað á þessum langa tíma. Aftur á móti hefur framganga stjórnenda LbhÍ gagnvart náminu síðustu tvö ár, sýnt að þeirra hugur er ekki að bera hagi garðyrkjunáms fyrir brjósti. Eins væri hægt að skrifa mikið og lengi um framkomu við starfsfólk á Reykjum en það er ekki mitt að greina frá því, enda ekki partur af því sem við lögðum upp í upphafi þó það hafi svo sannarlega ekki orðið til þess að bæta neitt“

Garðyrkjuskólinn er fullkomlega vannýtt auðlind sem þarf að byggja upp og þróa til að þetta sérhæfða og brothætta nám fái að stækka og blómstra í takt við tíðaranda samfélagsins og stóraukna þörf fyrir kunnáttu á sviði ræktunar og umhverfismála.  

Ef ætlunin er að byggja upp öflugt samfélag sem hefur þekkingu og reynslu til þess að standa að rannsóknum og nýsköpun í garðyrkju þarf fyrst og fremst að sinna grunnnáminu af kostgæfni og breikka þar með þann grunn sem hægt er að byggja ofan á.  Það er til lítils að tala um nýsköpun og rannsóknir á sviði garðyrkju ef grunnnáminu er bolað í burtu.

Bananahúsið færir okkur á trópískar slóðir.
Mynd – Helena Stefánsdóttir

Við sem störfum á vettvangi garðyrkju óskum enn og aftur eftir samráði ráðuneytis til að þjóna sem best hagsmunum garðyrkjunámsins og þörfum, nemenda og atvinnulífsins. 

Berglind Ásgeirdóttir, skrúðgarðyrkjumeistari og formaður Samtaka garðyrkju- og umhverfisstjóra sveitarfélaga.
Úrdráttur úr grein í Bændablaðinu.                                    

Fundur fulltrúa nemanda Garðyrkjuskólans Kjartan Sveinsson, Skírnir Þór Sigfússon, Gríma Kristinsdóttir, Björg Fríður Elíasdóttir og Helena Stefánsdóttir á fundi menntamálaráðherra.
Mynd – Helena Stefánsdóttir

Opið bréf til Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra
Þann 4. mars. 2021 fóru fulltrúar nemenda Garðyrkjuskólans að Reykjum í Ölfusi á fund Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra og afhentu henni opinbert bréf. Skorað var jafnt á ráðherra að tryggja framtíð garðyrkjunáms með öflugum Garðyrkjuskóla til framtíðar. Einnig sátu fundinn Þórarinn Sólmundarson sérfræðingur mennta- og menningarmálaráðuneytis og Björg Pétursdóttir yfirmaður framhaldsskólasviðs. Erindið var margþætt og meðal annars var nemendum mikið hitamál að til stendur að taka gróðurhús sem nú tilheyra skólabyggingum á Reykjum út úr rekstri skólans. Fyrirhugað er að láta gróðurhús af hendi til annarrar starfsemi. Þetta telja ráðamenn að komi ekki niður á námi í garðyrkju, þar sem nóg er til af gróðurhúsum um allt Suðurland, sem nota mætti í kennslu. Nemendur telja það ekki sinn hag að slíta starfsnámið úr tengingu við skólaumhverfið og benda á að til sé nægt húsnæði annars staðar fyrir aðra starfsemi en í húsum skólans. Segja nemendur að miðað við möguleika í greininni þurfi ekki að losa skólann við húsnæði og telja það yfirgang að færa eigi fyrirtæki í húsakost skólans eins og eina tilraunagróðurhúsið sem nemendur nýta sér til að mynda við vinnslu á lokaverkefnum sínum ásamt fleiru og bola því mikilvæga námi nemenda og starfsemi út. „Orkídeuverkefnið á bara ekkert heima á Reykjum, það er til nóg að öðru húsnæði sem þetta verkefni  getur nýtt sér og LbhÍ á að hætta öllum sínum afskiptum af jarðnæði og húsakosti Garðyrkjuskólans. Þetta er komið gott, Garðyrkjuskólinn þarf að fá vinnufrið, undirskriftalisti til stuðnings skólanum á Reykjum hefur farið af stað og þurfum við virkilega á stuðningi að halda.“ segir nemandi.

Menntastofnun útilokunar
Fundur nema með áðurnefndum fulltrúum hófst á góðum nótum og virtust allir í orði sammála um mikilvægi þess að tryggja áframhald garðyrkjumenntunar á Íslandi. Fyrstu fimmtán mínútur fundarins sat Lilja menntamálaráðherra með okkur og voru umræður þá að mestu á milli hennar og okkar nemanna. En því tókum við sem merki um það hve mikilvægt henni þótti málefnið, enda var fyrirvarinn á fundinum örstuttur. Athygli okkar vakti hve mikið Lilju kom á óvart að óánægja væri með undirbúning flutnings garðyrkjunámsins til FSu. Spurði hún ítrekað hvort ekki væri vilji nema eða öðrum viðkomandi að námið yrði flutt þangað. Við sögðum það ekki vera kjarnann í því sem okkur væri mótfallið. Við lýstum því hve skortur á samráði við nema og starfsfólk á Reykjum væri tilfinnanlegur, bæði varðandi flutninginn en einnig aðra starfsemi þar. Margþættur skortur á samráði við fagfólk í greininni var einnig ræddur. Ljóst var að Lilja hafði mikinn hug á að heyra hvað nemar hefðu að segja og að sýna að hún hlustaði og virti framlag okkar.

Margt brennur á nemendum.
Mynd – Helena Stefánsdóttir

Ljáðum við máls á því að friðar væri nú þörf á Reykjum til að græða upp það sem sárt væri orðið, að byggja upp það sem virtist komið á kné. Ein leið til þess væri að gera Garðyrkjuskólann að sjálfstæðri einingu, jafnvel sjálfstæðum skóla með sjálfstæð fjárráð allavega tímabundið, svipað og aðrar menntastofnanir hafa gert jafnvel með góðum árangri. En ljóst er okkur á Reykjum að hér þarf að vera stjórnandi með staðgóða þekkingu og yfirsýn sem getur stutt við og haft milligöngu fyrir sérhæfðari starfsmenn staðarins, auk þess sem fagstjóri verður að vera hér til að skera á hnúta, miðla og mæta því sem kemur uppá.

Þórarinn Sólmundarson ræðir málin.
Mynd – Helena Stefánsdóttir

Þegar Lilja fór af fundi tóku Þórarinn Sólmundarson og Björg Pétursdóttir við umræðunni og breyttist þá tónninn. Nokkuð þótti okkur nemum óljóst við orðalag í tilsvörum þegar rætt var eignarhald og umráðarétt yfir skólalóðinni og fasteignum á henni, en þá virtist hentistefna ráða því hvort þau tilheyrðu LBHÍ eða ríkinu eftir því hvernig við spurðum eða hvernig við notuðum þau sem útgangspunkt í viðræðum okkar. Sagan sýnir að það er ekki einsdæmi, enda er það skilningur okkar að ekki hafa Fasteignir Ríkisins viljað taka að sér umsjá fasteignanna á Reykjum vegna þess hve illa þau voru farin, en áfram grotnuðu þau í áraraðir meðan lítið var aðhafst fyrr en skemmdirnar voru orðnar umtalsverðar. Sá mannauður sem myndast hefur og mun áfram myndast við kennslu á Reykjum og vegna Reykja virðist varða almannahagsmuni vegna mikilvægis hans fyrir fæðuöryggi, sem sérstaklega hefur orðið greinilegt síðustu ár m.a. vegna heimsfaraldurs og áhrifa hans á framleiðslu og flutninga.    Vísum við þar í Eigendastefnu ríkisins vegna jarða, landa, lóða og auðlinda frá 5. júlí 2019 lið 2 a þriðja punkt á blaðsíðu 4 um forsendur fyrir eignarhaldi ríkisins „Almannahagsmunir þurfa ekki nauðsynlega að vera af fjárhagslegum toga heldur geta þeir legið í aðgengi almennings að náttúruminjum, vernd landsvæða eða tiltekinni hagnýtingu til almannaheilla.“ Rikiseignir.is: Forsendur fyrir eignarhaldi.

Hvað kostar að glata?
Auk mannauðs hafa þau plöntusöfn sem liggja bæði innan og utan dyra á Reykjum og sú uppbygging sem hefur farið þar fram á rúmlega 80 árum frá stofnun Garðyrkjuskólans ótvíræðan og óflytjanlegan ávinning fyrir Garðyrkjuskóla, svo aðgengi almennings að þeirri tilteknu hagnýtingu til almannaheilla sem býðst aðeins þar er nauðsynlegt að tryggja og er það hlutverk ríkisins samkvæmt eigin stefnu þess. Því hvergi á Íslandi býðst staður sem getur eins vel byggt upp þekkingu og hæfni nemenda til að ávinna sér færni til eflingar fæðuöryggis Íslands eins og Reykir í Ölfusi, þótt fleira mætti nefna. Garðyrkja er þó ekki aðeins fag sem þúsundir stunda heldur hún studd af tugum þúsunda áhugamanna sem verða að geta treyst því að ráðleggingar fagmanna séu áreiðanlegar. Teljum við að það náist best með góðri menntun í Garðyrkjuskólanum á Reykjum.

Björg Pétursdóttir yfirmaður framhaldsskólasviðs talar fyrir breytingum. 
Mynd Helena Stefánsdóttir

Garðyrkjufræði er ekki lítilsvirt dútl.
Ábyrgð ríkisins gagnvart því að sinna almannahagsmunum hverfur ekki þótt það sé dýrt eða ópraktískt til skemmri tíma. Iðnnám er dýrt og það mun ekki hætta að vera dýrt. En hvað kostar fæðuöryggi og hvað kostar að glata því? Hvað kostar að framfylgja stöðlum um aðgengi sjúkraflutninga og slökkviliðs og hvað kostar að mennta skrúðgarðyrkjufræðingana sem bera ábyrgð á frágangi lóða við hús? Hvað kosta mannslíf? Er ódýrara að fylgja ráðum Þórarins og slíðra sverðin, hætta þessum deilum?

Fulltrúi FSu benti réttilega á að garðyrkjunám þyrfti að vera aðlaðandi fyrir ungt fólk og vill því fella alfarið niður kröfu sem nú er um að með fáum undanþágum verði nemar að hafa lokið vissum námskeiðum í almennum framhaldskóla sem samsvarar ca. tveggja ára námi. Sannarlega þarf að hyggja að því hver endurnýjun fagfólks er í greininni og hvernig hún fer fram. En ef gjaldfella á námið til þess eins að létta það svo fleiri ungar manneskjur sækist í það er spurning hvort betra væri heima setið en af stað farið. Garðyrkjufræði er ekki eitthvað lítilsvirt dútl. Við sem höfum starfað til fleiri ára í garðyrkju og höfum stundað nám í garðyrkjufræðum vitum að sú hæfni og þekking sem krafist er í náminu er ekki þar af tilviljun og að þeir færniþættir sem krafist er að nemar sýni fram á er ekki einhver gamaldags menntahroki, heldur það sem sjálfkrafa verður nauðsynlegt að kunna þegar farið er í nám og byrjað er starf af fagmennsku í þessum fræðum. Treystir maður jafn vel mat sem gerður er af manneskju úr gjaldfelldu námi og rafmagnslögnum sem lagðar eru af manneskju sem ekki hefði farið í rafvirkjanám ef það væri eins krefjandi og fagaðilar hafa farið fram á að það sé, svo námsskráin endurspeglaði það? Námsskrá garðyrkjufræði er frá 2018 og endurspeglar þær kröfur sem gerðar eru til menntaðra fagaðila í greininni nú til dags. Önnur umræða er hve mikil ítök aðilar með viðskiptalega hagsmuni eigi að hafa á menntastefnu tiltekinna skóla eða á framgöngu menntamálaráðunneytis, en ekki verður farið nánar í hana hér og nú. Fram kom að skrúðgarðyrkjufræði telst einungis iðnnám samkvæmt lögum um löggildingar starfsgreina, en erlendis er garðyrkjufræði og garðyrkjufræðingar ekki taldir standa utan iðngreina þrátt fyrir það, svo okkur þykir eðlilegt að líta á allt í námsframboði Garðyrkjuskólans sem iðngreinar. Nóg er svo til af skólum og námsbrautum sem eru í raun lokaðar fólki yfir vissan aldur.

Verðandi garðyrkjufræðingar?
Mynd – Helena Stefánsdóttir

Ekki sjáum við neitt sem ætti frekar að hindra Garðyrkjuskólann í að laða að ungt fólk eða taka þátt í rannsóknum og nýsköpun heldur en LBHÍ. Nám í garðyrkjufræði er starfsnám á framhaldsskólastigi, en rannsóknir og nýsköpun getur farið fram á hvoru skólastigi fyrir sig og að því leyti er fátt sem hindrar samstarf við framhaldsskóla eins og FSu eða háskóla á borð við HÍ eða LBHÍ, hvort sem námið verður að miklu eða öllu leyti sjálfstætt á Reykjum, svo lengi sem fullt samráð og samþykki allra aðila fæst fyrir því. Frekar það en að starfsfólk og jafnvel umsjónamenn starfsemi í viðkomandi húsum þurfi að frétta úti í bæ eins og hefur verið undanfarið, að enn og aftur eigi að veita aðilum húsnæði á Reykjum til slíkrar notkunar (s.s Orkídeuverkefnið sem verið er að koma í gang um þessar mundir). Húsnæði sem þó er í fullri notkun.

Úrdráttur úr bréfi til mennta- og menningarmálaráðherra
Við nemendur Garðyrkjuskólans á Reykjum skorum á mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur að gæta hagsmuna garðyrkjunáms á Íslandi, tryggja að fulltrúar þess fái að taka fullan þátt í yfirfærslu námsins til FSu og tryggja að allar eignir gamla Garðyrkjuskólans sem og tæki og þau tól sem skólinn átti fyrir sameiningu LbhÍ fylgi með náminu á nýjan stað svo unnt verði að tryggja öfluga uppbyggingu námsins til framtíðar. Það er að auki nauðsynlegt vegna fyrri reynslu að auka aftur sjálfstæði og fjárræði Garðyrkjuskólans og ráða fagstjóra eða annars konar stjórnanda þó að hann verði staðsettur innan FSu. Með því er hægt að forðast endurtekningu og tryggja það að í framtíðinni fái skólinn það frelsi og rými sem hann svo sannarlega þarf til að vaxa og dafna á nýjan leik.
Virðingarfyllst
Nemendur Garðyrkjuskólans á Reykjum – Bréfið í heild birtist  í Bændablaðinu.

Umsjón Helena Stefánsdóttir
Helenastefansdottir.com: Myndir frá 80 ára afmæli Garðyrkjuskólans

Facebook ummæli