Þann 19. mars síðastliðinn hófst eldgos í Geldingadölum.  Hefur ekki farið fram hjá neinum.  Gosið er nálægt byggð, og þar að auki höfuðborgarsvæðinu, og því var ljóst frá upphafi að margir myndu leggja leið sína að gosstöðvunum.  Björgunarsveitir landsins hafa komið að gæslu, umferðarstýringu, sjúkraflutningum og öðrum þeim verkefnum sem verða til við atburð sem þennan og hef ég notað nokkra sumarfrísdaga mína í að sinna þessum verkefnum.  Mjög gaman og gefandi að taka þátt í því. Nú er það svo að þegar slíkir atburðir hafa staðið lengur en 72 klukkustundir þá greiðir ríkið fyrir vinnuframlag björgunarsveitanna.  Um er að ræða samning milli Landsbjargar og ríkislögreglustjóra, sem er vel.  Miðað er við útseldan tíma lögreglumanns og fyrir tæki er greitt samkvæmt kjörum á almennum markaði.

Í þessu eldgosi hafa björgunarsveitir landsins lagt fram mörg þúsund vinnustundir.  Bara sveitin mín, Hjálparsveit skáta í Hveragerði hefur lagt fram 431 klukkustund.  Grindvíkingar eflaust mörg þúsund og aðrar sveitir eitthvað þar á milli.  Við í Hveragerði eigum inni í dag hjá ríkinu um það bil fjórar milljónir króna.  En það er ekki sopið kálið þó í ausuna sé komið.  Mér skilst að ríkið gefi sér marga mánuði, stundum upp í eitt ár, að greiða kostnað sem þennan til björgunarsveita landsins.  Veit ekki af hverju, ætli það sé ekki bara af því bara, þau rök sem maður því miður fær af hendi ríkisvaldsins þegar eitthvað er ekki eins og það á að vera.  

Þetta er auðvitað ekki í lagi og ég mun skoða hvað er hægt að gera til að þetta sé ekki með þessum afar einkennilega hætti.  Ætli maður fengi ekki tiltal frá skattinum, jafnvel lögfræðilegar innheimtuaðgerðir, ef maður segðist ætla að hinkra með skattgreiðslur sínar í nokkra mánuði, jafnvel eitt ár.  Bara svona af því bara, af því að maður væri að nota aurinn í eitthvað annað.  Því miður er það svo að það hallar yfirleitt, nánast alltaf, á þann sem á í samskiptum/viðskiptum við ríkið.  Af því bara.  En þetta þarf auðvitað ekki að vera svona.  Við erum ríkið og við erum þau sem byggðum öll þessi kerfi upp.  Breytinga er þörf

En á jákvæðum nótum í lokin 😊  og afsakið neikvæðnina.  Eldgosið er ægifagurt og tignarlegt.  Jarðfræðingum finnst það lítið en það er algjörlega þess virði að ganga upp að því á góðum degi.  Þessa dagana er mjög kalt.  Skyggni misjafnt og gasmengun getur orðið til þess að svæðinu er lokað fyrirvaralaust.  Farið og njótið en farið varlega, ég myndi helst ekki vilja hitta ykkur þarna upp frá í einhverri neyð.

Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Arna Diljá Guðmundsdóttir hjá Hjálparsveit skáta í Hveragerði í viðtali á RÚV


Facebook ummæli