Við þurfum 8-10 lóðir á ári til að urða almennan heimilisúrgang okkar Hvergerðinga.
Hver vill lána lóðina sína undir ruslið okkar?

Fyrirsögnin hér að ofan er að sjálfsögðu ekki sá vandi sem við Hvergerðingar stöndum frammi fyrir, amk ekki ennþá en vissulega þarf drjúgt land til urðunar á  þeim heimilisúrgangi sem fellur til hjá 2700 manna samfélagi. Staðreyndin er sú að vandamálið hverfur ekki að sjálfu sér. Því þurfum við öll að leggjast á eitt að draga úr því magni úrgangs sem fer í urðun.

Vinnuhópur á vegum Hveragerðisbæjar vinnur nú að verkefni sem heitir „Zero waste” eða „Enginn-úrgangur” og miðar verkefnið að því að koma á hringrásarkerfi úrgangs til framtíðar.

Hópinn skipa Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, Kolbrún Vilhjálmsdóttir, Sigríður Kristjánsdóttir og Anton Tómasson auk Ingunnar Jónsdóttur verkefnisstjóra og Elísabetar Björneyjar Lárusdóttur ráðgjafa.

Staðreyndin er að almennur heimilisúrgangur sem við Hvergerðingar hendum (gráa tunnan) er:

  • yfir 1 tonn á dag af almennum heimilisúrgangi.
  • u.þ.b. 130 kg óflokkað rusl á hvern íbúa á ári.
  • samtals þarf Hvergerðisbær því að urða yfir 350 tonn á ári.

Til þess að setja magnið í myndrænt samhengi.

  • Eitt tonn á dag er nóg til að fylla heitu pottana í Laugaskarði daglega alla daga ársins.
  • Það tæki aðeins tæpa 3 mánuði að fylla sundlaugina Laugarskarði bara með þessum óflokkaða úrgangi frá okkur Hvergerðingum.
  • Í ljósi þessa er aðalverkefni og markmið vinnuhópsins, og vonandi sem flestra bæjarbúa,  að minnka óflokkaðan heimilisúrgang um 10% eða meira árið 2021.

Ert þú með í að flokka meira og farga minna?
Líkt og með öll samfélagsleg verkefni sem vinna að breyttri hugsun og hegðun mun þetta verkefni ekki takast nema með þátttöku ykkar Hvergerðinga. Hvernig við munum fá sem flesta bæjarbúa til að vinna að þessu markmiði um minnkun úrgangs á eftir að koma í ljós en við munum kynna áætlanir um virkjun íbúa og félagasamtaka á næstu vikum og mánuðum. Við erum nokkrir eldhugar en þiggjum allar ábendingar og liðveislu sem býðst.

Markmið verkefnisins er að minnka úrgang sem fer í urðun um amk 10% fyrir árið 2021 eins og áður sagði. Til þess að svo megi verða þurfum við að hugsa í lausnum og flokka meira og betur. Þannig minnkum við á einfaldan hátt almennan úrgang sem fer í urðun. Pappi og plast í endurvinnslu, lífrænn úrgangur í brúnu tunnurnar og hreint timbur til brennslu. Tölum nú ekki um að endurnýta og gefa hluti áfram eins og í Rauða Krossinn, nytjagáminn eða á fésbókinni sem dæmi. Allt telur í átt að hreinna landi og bættu samfélagi.

Enginn getur allt en allir geta eitthvað og saman getum við miklu, miklu meira.

Fyrir hönd nefndarinnar
Anton Tómasson

Það tæki aðeins þrjá mánuði að fylla sundlaugina í Laugaskarði með óflokkuðum úrgangi bæjarbúa.

Facebook ummæli