Við könnumst flest við máltækið að henda sér út í djúpu laugina. Að henda sér út í djúpu laugina felur í sér að taka áhættu og takast á við eitthvað óvænt. Þú veist ekki hvað bíður þín og þú nýtir allan þinn grunn, alla þína reynslu og áhuga þinn til að takast á við það sem framundan er.


Það getur valdið ótta að takast á við eitthvað óvænt. Við getum farið í gegnum lífið án þess að taka áhættu. Óttinn við að mistakast er eflaust það sem aftrar okkur í því að stíga skrefið.

Við getum endalaust velt því fyrir okkur að mögulega muni okkur mistakast en er það lífsspeki sem við viljum lifa eftir? Eða viljum við ögra okkur og takast á við ný verkefni? Viljum við hafa áhrif? Viljum við breytingar? Viljum við taka þátt og jafnvel leggja eitthvað af mörkum til samfélagsins og efla okkur í leiðinni?

Hvers virði er að taka stökkið? Getur það mögulega haft jákvæð áhrif?
Við þurfum að sýna ákveðið hugrekki til að takast á við óttann og hafa þá trú að það séu yfirgnæfandi líkur á að flest gangi upp. Hlutirnir hafa tilhneigingu til að fara vel. Það er mín reynsla að þegar ég hef valið að taka stökkið, henda mér út í djúpu laugina hefur það yfirleitt haft jákvæð áhrif á líf mitt. Nú ef þetta fer úrskeiðis þá er verkefnið að undirbúa sig fyrir næsta stökk.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir,
Bæjarfulltrúi Frjálsra með Framsókn

Facebook ummæli