Körfuknattleiksdeild Hamars eignaðist á dögunum nýja skotvél sem kallast Byssan, eða „The Gun“. Daði Steinn Arnarsson yfirþjálfari hjá yngri flokkum Hamars hafði gengið með þann draum í maganum, að krakkarnir hefðu aðgang að svona vél til að bæta skotgetu sína. Vélin sem kemur frá vöggu körfuboltans í Ameríku, þjálfar m.a vöðvaminni leikmanna með endurteknum sendingum á ákveðnum hraða.

Það eru margar hendur og margar raddir sem koma að því að halda íþróttalífi barna og unglinga gangandi. Þetta er að stærstum hluta sjálfboðaliðastarf og því oftar en ekki erfitt að gera kröfur um vinnu og/eða fjárframlag. Daði Steinn vill koma á framfæri sérstöku þakklæti, til fjögurra fyrirtækja sem hafa stutt vel við yngri flokka starf körfuboltans í Hveragerði. Það eru Krónan, Dvalarheimilið Ás, TRS og Byggingarfélagið Hamar.

Krakkarnir í Hamri eru byrjuð að nýta sér vélina á fullu og er er mikil ánægja með þessa tilbreytingu og verður gaman fyrir þau að fylgjast með bætingum hjá sér í framtíðinni.

Facebook ummæli