Björgvin Karl Guðmundsson og Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir hafa verið að æfa af kappi hjá Crossfit Hengli í Hveragerði en þau hefja keppni á Crossfit Games 2020 á morgun föstudag.

Vegna ástandsins í heiminum eru leikarnir með óhefðbundnu sniði en þeir munu fara fram svipað og Rogue invitionals, þ.e. hver keppandi keppir frá sínu landi í 2ja daga keppni en svo fara efstu fimm karlarnir og konurnar út til Bandaríkjanna í október og keppa um titilinn Fittest on Earth.
Umboðsmaður þeirra Björgvins og Ragnheiðar Söru var í viðtali á Rás 2 í morgun og var bjartsýnn á góðan árangur og mikil stemming er meðal Crossfittara fyrir mótinu sem fer fram í 16 löndum. Einungis 30 karlar og 30 konur hafa þátttökurétt og á því Ísland 5% keppenda í mótinu, en fyrir utan Björgvin og Ragnheiði Söru þá keppir Katrín Tanja Davíðsdóttir sömuleiðis undir fána Íslands þó hún keppi erlendis.

Við hvetjum allt Crossfit áhugafólk að fylgjast með á heimasíðu Crossfit games því áhorfendafjöldi er mjög takmarkaður þar sem stöðvarnar eru litlar og sóttvarnareglur strangar. Sömuleiðis eru mjög strangar reglur um öll samskipti. Símar og önnur snjalltæki eru bönnuð meðal áhorfenda svo enginn leki upplýsingum um tímatöku og frammistöðu þar sem mótið fer fram á nokkrum tímabeltum.
Hér fyrir neðan eru tenglar sem hægt er að fylgjast með keppendum í Henglinum. ÁFRAM ÍSLAND!

Crossfit Games

Instagram síða Björgvins Karls

Instagram síða Ragnheiðar Söru

Instagram síða Katrínar Tönju

Facebook ummæli