Rithöfundurinn og skáldkonan Guðrún Eva Mínervudóttir er fjallkona Hveragerðis 2020. Við fengum að birta þetta fallega frumsamda ljóð sem hún flutti í Lystigarðinum okkar á 17. júní.

Vinir
Ég gekk upp hlíðina
upp á heiði
framhjá vörðunni sem varar
ferðalanga við því
að fara lengra

Sólin úthellti sér
yfir lággróðurinn
Sólskin og logn
runnu saman í eitt
Og þá varð ljóst
að á næstu grösum
í lyng-ilmandi loftinu
og allt um kring
tindruðu hin hinstu rök

Þá skal þess gætt
að líta ekki um öxl
heldur fylgja stígnum
áfram og upp
til lífs og til gleði
til tungls og stjarna

Upp, vinir, upp
lyftum hjörtum vorum
til himins
þar sem þau eiga heima

Lóur bíuðu
í kyrrðinni
Flugur suðuðu milli blóma
En allt þagnaði
þegar naut kom æðandi
með hárbeitt horn
og þandar nasir
Ég fann andardrátt þess
á augnlokunum
Blautar granir
strukust við vanga

Ég spurði griðunginn
hvert svarið væri við öllum sköpuðum hlutum
Styrkur, svaraði hann. Þolgæði
Fyrirstöður jafnaðar við jörðu

Gott og vel, sagði ég
og hélt áfram göngunni

Gríðarstór ránfugl
assa með hvöss augu
steypti sér niður
með gogg eins og bjúgsverð
vængi eins og leiktjöld

– Viljirðu vita hvert svarið er
get ég sagt þér það
Yfirsýn og ábyrgð
við gætum eggjanna
hvað sem það kostar
Þau eru auðlindin
Þau eru framtíðin

Mikið rétt, sagði ég
og hélt áfram göngunni

Annað vænghaf
dekkti himinn
Eldspúandi gin
Búkur alsettur bláum skeljum

Mér var sagt að þú leitaðir svara,
hvíslaði hið vængjaða ljón
Þau er að finna í vatninu
áreynslulausri umbreytingu
allra hluta
Við afrekum án þess að strita
Við höfum gæfuna með okkur
Það er allt og sumt

Mæl þú vætta heilust, systir, svaraði ég

Undir fótum mér skalf jörðin
fótatak bergmálaði milli kletta
Yfir gnæfði fjall-karl
Mosagróinn, næstum eilífur
Augun mennsk
en skrokkurinn úr grjóti

– Ekkert að óttast, mannsbarn
Þótt líkami þinn sé
eins og fis í vindi
Leggðu traust þitt
á bjargið
Og þér mun vel farnast

Takk, svaraði ég
og hélt áfram göngunni

Ég taldi mig dreyma
þegar stígurinn lá ofan í gjótu
niður í jörðina
gegnum myrkrið
inn í uppljómaðan sal
Veggir og loft úr hvítakvarsi
Úr gólfinu spratt lind
Við lindina sat hún
og prjónaði skjól fyrir heiminn
úr hraðvöxnu hári sínu

Vinir, ég kynni til sögunnar
fimmtu landvættina
Hún var alltaf hér
huggandi börn
líknandi sjúkum
nærandi
verndari
mennskunnar

Heimurinn er tær þótt hann sýnist gruggugur
sagði hún
Það er fyrsta lögmál kristallafræðinnar

Svarið er miskunn og mýkt
náð og mildi
Við eigum skilið allt það besta
og mikið af því
Fólk sem við þekkjum ekki neitt
á skilið allt það besta og mikið af því
Okkar versti óvinur
á skilið allt það besta og mikið af því

Fegurð og sátt
eru ótæmandi brunnur
Við berum gjafirnar áfram
og útdeilum þeim án þess að hika
Því nóg er til
Það er alltaf nóg til

Facebook ummæli