Anna Jórunn á mörg spor í menningarlífi bæjarins og er varla til það félag í menningarlífi okkar Hvergerðinga sem Anna Jórunn hefur ekki komið nálægt. Hún hefur ekki alltaf verið sú persóna sem mest ber á, en eins og sonur hennar Stefán nefndi við mig þá á hún mjög erfitt með að segja nei og hefur því ávallt verið tilbúin að taka að sér hlutverk og bjarga málum og aðstoða eins og henni er einni lagið. Hún Anna Jórunn hefur sungið með Kirkjukór Hveragerðis og Kotstrandarsóknar, Söngsveit Hveragerðis og einnig með kór eldri borgara í Hveragerði, hún hefur ávallt verið tilbúin að aðstoða við raddþjálfun og styðja við og syngja hvaða rödd sem er því að hún les nótur mjög vel og er lagviss. Ef það vantar stuðning í bassa eða tenór eða jafnvel organista er það ekki vandamál, lögin og textana lærir hún strax utanbókar og stendur nær ávallt á tónleikum blaðalaus á meðan flestir eru með möppur.

Anna Jórunn er heiðursfélagi Leikfélags Hveragerðis en þar hefur verið félagi til tugi ára þar sem hún hefur setið í stjórn, verið formaður í mörg ár, leikstýrt nokkrum verkum og leikið í enn fleiri verkum.

Anna Jórunn er einnig sellóleikari og hefur í mörg ár spilað með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, hún er mikil handverkskona og hefur verið dugleg að tileinka sér gamalt handverk og hefur m.a. verið að orkera, gimba og knipla og hefur hún meðal annars kennt að knipla á þjóðbúninga hjá Heimilisiðnarfélagi Íslands. Þá er hún einnig góður hagyrðingur og yrkir vísur ef þarf sagði góð vinkona hennar. Það sem hún Anna Jórunn hefur tekið sér fyrir hendur er gert með eldmóði og dugnaði.

Innilega til hamingju Anna Jórunn, þú ert einstaklega vel að þessum verðlaunum komin.

Friðrik Sigurbjörnsson
formaður menningar-, íþrótta- og frístundanefndar Hveragerðisbæjar

Friðrik Sigurbjörnsson og Anna Jórunn Stefánsdóttir

Facebook ummæli