Máney litla Úlfarsdóttir er sennilega búin að upplifa fleiri útivistarferðir og ævintýri á sinni stuttu ævi en mörg okkar gera um ævina alla. Foreldar hennar Úlfar Jón Andrésson og Lilja B. Jónsdóttir eru mikið útivistarfólk og hafa ekkert slakað á í þeim efnum eftir að þeim fæddist dóttir í desember árið 2019. Úlfar segist ekki þekkja öðruvísi barnauppeldi enda sjálfur stundað útivist nánast frá fæðingu.

„Foreldrar mínir stunduðu mikla útivist; jeppar, hestar, skíði, stangveiði, tjaldútilegur, hlaup, fjallgöngur og fjallahjólamennska. Faðir minn byrjaði að fjallahjóla þegar ég er þriggja ára og svo gáfum eða seldum við hestana okkar þegar ég er sex ára og fórum á fullt í fjallahjólin. Næstu sex sumur fóru í að ferðast á fjallahjólum saman sem fjölskylda. Við fórum krefjandi leiðir þó í dag myndu þær bara taka daginn fyrir mig, en þá tókum við þær á 2-4 dögum, bárum tjöld og allan búnað á hjólunum. Þegar ég lít til baka þá finnst mér ég hafa fengið æðislegt uppeldi og í mínum augum vorum við systkinin rosalega dekruð. Við vorum ekki peningalega rík, við fengum ekki allt það dót sem okkur langaði í eða efnislega hluti, heldur meira þá hluti sem við þurftum og alla þá hluti sem þurfti til útivistar. En verðmætasti partur uppeldisins var að foreldrar okkar eyddu öllum sínum frítíma með okkur og í minningunni var ég 22 ára þegar foreldrar okkar fóru í fyrsta fríið án okkar. Fyrir foreldrum okkar var ekkert eðlilegra en að taka okkur með í hvað sem þau gerðu og ég á margar minningar af þessum fjölskyldustundum og hvernig maður lærði að bera virðingu fyrir náttúrunni en á saman tíma nýta allt sem hún hefur upp á að bjóða í öllum veðuraðstæðum. Í einni ferðinni enduðum við á því að hjóla á móti vind alla fjóra dagana og pabbi ákvað síðasta daginn að hjóla á undan okkur til þess að sækja bílinn og sleppa okkur við þá 50 km sem eftir voru. Veðurspáin fyrir ferðina var rosalega góð en eins og oft vill verða þá rættist það ekki! Ferðin var engu að síður æðisleg, við gistum í tjaldi í grenjandi rigningu og borðum kvöldmatinn í yfirgefinn skemmu, björguðum rollu sem var föst ofan í skurð og gistum ofan í sprengigíg til þess að losna undan þeim ofsavind sem þá var. Mig minnir að ég hafi verið 8 ára í þessari ferð.“

Úlfar og Lilja byrjuðu saman 17 ára gömul og þegar þau fóru að huga að barneignum var aldrei annað inni í myndinni en að ala útivistina upp í börnunum. „Ég var frekar ungur þegar ég áttaði mig á þessum forréttindum sem ég var að alast upp við og og ákvað í rauninni þá að ég skyldi ala börnin mín upp á sama hátt. Þá var bara næsta, ómeðvitaða skref að finna mér kærustu sem deildi þeirri skoðun. Lilja bjó á Akranesi á þeim tíma, var mikil íþróttakona og á fullu í badmintoni, en hún var Íslandsmeistari í sínum aldursflokki þá. Hún kynntist fjallamennskunni svolítið í gegnum mig og féll strax fyrir þeim lífsstíl,“ segir Úlfar en sjálfur er hann landsliðsmaður í íshokkí, sem hann hefur æft frá því hann var sex ára og því ekkert skrítið að hann skuli leika sér að því að skauta með ungabarn.

Fyrsta skautaferðin á sérútbúnu mini-hokkísvelli í Hveragerði

En útivistin og ævintýramennskan er ekki bara áhugamál, þetta er aðallifibrauð fjölskyldunnar. „Að undanskildum blaðburði og sundlaugavörslu með skóla, þá hef ég í rauninni aldrei unnið fyrir neinn nema sjálfan mig. Ég byrjaði með garðsláttarfyrirtækið mitt 13 ára gamall og síðan þegar ég útskrifaðist af fjölbraut 2007 kom hrunið og þá stofnuðum við Bílaþvottastöðina Úllabón til þess að skapa vinnu fyrir mig áður en ég færi í háskólanám. Og út frá því byrjum við að leggja grunninn fyrir Iceland Activities sem var stofnað 2010 en það var hugmynd föður míns sem hann var búinn að ganga með síðan árið 2000, að við gætum starfað við áhugamálin okkar.“

Þannig höguðu örlögin því að ungu hjónin gerðu útivist og fjallamennsku að aðalstarfa sínum eftir að þau settust að í Hveragerði. „Ég var ekki með neina stefnu hvað ég ætlaði að verða, fyrir utan kannski að verða atvinnumaður í íshokkí. Ég lifði þá og nú enn í dag rosalega mikið í líðandi stund og hugsa sjaldan of langt fram í tímann. Lilja útskrifaðist svo sem lífefnafræðingur árið 2015 og hefur unnið við það síðan þá, ásamt því að hjálpa til í fjölskyldufyrirtækinu og auðvitað að plana næstu ævintýri.“

Lilja og Úlfar reyndu í tæp fimm ár að eignast barn og þurftu á endanum aðstoð frá Livio. Þau biðu því nokkuð lengi eftir Máneyju. „Við ætluðum okkur alltaf að eignast barn og á þessum biðtíma vorum við að safna allskyns dóti og búnaði til þess að geta ferðast með barnið okkar í þeim áhugamálum sem við stundum. Erum t.d. með tvo mismundi hjólavagna til þess að draga hana í, þrjú mismunandi hjólasæti fyrir hana fyrir mismunandi aðstæður og aldur, skíðapulku, snjóbretti, skauta, nýjan vetrarbrimbrettagalla sem hún passar í þegar hún verður fjögurra ára, og margt fleira.“ 

Máney í sinni fyrstu fjallaskíðaferð með foreldrunum

Þegar kom að því að afhjúpa nafnið sem þau völdu á dóttur sína bjuggu Úlfar og Lilja til myndband og fór litla fjölskyldan heldur betur ótroðnar slóðir þar. „Hún náði útiþyngdinni bara rétt fyrir tveggja mánaða aldurinn þar sem hún fæddist svo lítil og létt. En þá fengum við hugmynd að því að taka upp myndbönd af því þegar hún væri í þeirri vetrarútivist og áhugamálum sem fjölskyldunni þykir skemmtilegt að stunda saman. Ef hún verður ekki áhugasöm um það seinna meir þá er auðvitað svigrúm fyrir breytingar,“ segir Úlfar og hlær. Daginn eftir tveggja mánaða afmælið fór Máney því í fyrsta sinn á skauta og í púlku aftan á skíði, fyrir myndavélina. „Tveimur dögum seinna fór hún á kajak og í fjallahjólavagninn sem ég bjó til handa henni,“ segir Úlfar en þau tóku nafnamyndbandið upp á sex dögum. Og síðan þá hefur hún varla stoppað. „Hún er búin að haka í ansi mörg box í dag og geislar þegar hún fær að fara á hjólin, skíðin, sleðann eða skautana. Við elskum að hafa dóttur okkar með okkur og lítum á þetta sem þjálfun fyrir hana og að hún verði fyrr sjálfbjarga í náttúrunni og á fjöllum með okkur en ella.“

Suma foreldra óar við því að fara með börnin með sér inn í búð, hvað þá að taka þau með í ferðalög og Úlfar viðurkennir að eftir að Máney kom til sögunnar þurfi ævintýrin þeirra Lilju meiri undirbúning. „Þetta er klárlega hellings aukaundirbúningur fyrir hvern dag, sérstaklega yfir vetrarmánuðina. En undirbúningurinn er algjörlega nauðsynlegur og í rauninni eina leiðin til að þetta sé hægt. Við liggjum yfir veðurspánni kvöldið áður og gerum nokkur plön fyrir daginn, við þurfum að taka með mun meira af öryggisbúnaði. Þegar við skautum á gígunum t.d. þá er ég búinn að bora ísinn og mæla áður en ég fer með barnið mitt á ísinn, þannig að ég hafi sem næst 100% stjórn á öllum aðstæðum. Þetta er algjörlega þess virði og að sjá hvað hún nær tökum á hlutunum jafnt og þétt er æðislegt, allir kossanir, brosin og knúsin sem hún gefur, eru ógleymanleg. Hún elskar að fara hratt, sjá krumma og knúsa!“

Máney var rétt byrjuð að stunda útivist með foreldrunum þegar Covid faraldurinn skall á, sem gerði fjölskyldufyrirtækinu erfitt fyrir en ekki fjölskyldunni sjálfri. „Við höfðum allt í einu enn meiri tíma til að njóta útiverunnar saman sem fjölskylda þar sem það voru engar ferðir í gangi og íshokkíæfingarnar lögðust af. Þó svo að 2020 hafi verið magurt peningalega séð, og ekki gaman að fylgjast með Covid fréttum, þá var þetta æðislegt ár varðandi fjölskyldustundirnar sem við upplifðum á árinu og sá tími sem ég græddi með dóttir minni og fjölskyldu er ómetanlegur. Í þeim skilning var 2020 framúrskarandi ár fyrir okkur.“

Og þau Lilja og Úlfar sátu aldeilis ekki auðum höndum í samkomubanninu. „Í byrjun apríl seldum við fjölskyldubílinn og keyptum gamlan Econline sem við rifum allt innan úr og vörðum tveimur mánuðum í að breyta honum í hinn fullkomna fjölskylduævintýrabíl, með öllu því sem við gátum mögulega komið fyrir. Hann er hannaður þannig að við getum verið með nokkur ungabörn í bílnum, fyrir framtíðina. Í bílnum eru Isofix barnastólafestingar, setustofa fyrir 6 sem hægt er að breyta í gestaherbergi. Eldhús með vaski, eldavél og vinnuborði, þurrkskápur sem er líka salerni en þar getum við lokað allt blauta dótið okkar inni og þurrkað á stuttum tíma og losnað við rakann inni í bílnum. Svo erum við með fast rúm aftast í bílnum, ísskáp og kælibox. Bíllinn er hitaður upp með olíumiðstöð og hefur Máney gist yfir 30 nætur í bílnum en mesti kuldi sem hún hefur gist í var -15°C.“

Eldað í heitum hver og hundurinn Rebbi fylgist með

Framundan eru fleiri skauta- og hjólaferðir, fjallgöngur og baðferðir en Úlfar vonast eftir meiri snjó í vetur svo þau geti skíðað meira með Máneyju. „Við bíðum líka spennt eftir næsta góða snjóstormi þar sem okkur langar til að búa í húsbílnum á meðan stormurinn geisar,“ segir Úlfar kíminn. „Ég stefni á að reyna að fara í fleiri vetrarútilegur þar sem ég gisti í tjaldi, snjóhúsi, undir berum himni eða gref mig í fönn ef það er mikill stormur.“  

Úlfar og Máney á skautum við Skógarfoss

Og hvað sem faraldrinum líður stendur mikið til í sumar líka. „Við stefnum að því að ferðast mikið í sumar, fara bæði stuttar dagsferðir og allt upp í vikuferðir þar sem ferðumst á fjallahjólum, fótgangandi og á kajökum og gistum bæði í húsbílnum og tjöldum á lág- og hálendinu. Þegar við stofnuðum fyrirtækið þá lögðum við upp með að byggja það þannig upp að það væri engin pressa. Faðir minn fær hugmyndina að fjölskyldufyrirtækinu í rauninni 10 árum áður en við byrjum, þá er ég 12 ára gamall, og á þessum 10 árum byrjum við að safna dóti fyrir fyrirtækið og kaupum fyrstu hjólin í raun fimm árum áður en við byrjum með ferðir. Í þessum aðstæðum erum við rosalega heppin að vera lítið fyrirtæki og að vera með fjölbreytta afþreyingu í boði. Höfum verið vinsæll kostur í gegnum árin með hópefli fyrir Íslendinga en síðasta sumar var mikil ásókn meðal Íslendinga í Aparóluna okkar líka. Hún var opin allar helgar yfir sumartímann og verður opin aftur allar helgar í júní og júlí hið minnsta, ef veður leyfir þetta sumarið.“

En Íslendingar lærðu svo sannarlega að ferðast um eigið land og þefa þar uppi ævintýri þegar utanlandferðir eru ekki í boði. „Við höfum sérstaklega fundið fyrir aukningu í hellaferðirnar, hveraeldunarbaðferðirnar og fjallahjólaferðirnar þar sem fólk er að upplifa nýja hluti með okkur, hvort sem það er ný hjólaleið eða alveg ný upplifun, og höfum við fengið mikið af fjölskyldum með ung börn, vinnustaði, vinahópa og pör sem eru að leita eftir spennandi og öðruvísi afþreyingu.“

Og að lokum, hver skyldi vera eftirminnilegasta ferðin sem Úlfar og Lilja hafa boðið ferðamönnum upp á? „Þetta er erfið spurning, það poppar svo margt upp. En ein sú eftirminnilegasta var kannski þegar ég fór með kanadískt hokkílið í vetrarferð. Við tjölduðum á ísnum í sprengigíg og spiluðum svo hokkí þegar við vöknuðum um morguninn. Þetta var líklega í fyrsta skipti í heiminum sem hokkílið spilar á sprengigíg.“

Þið getið fylgst með ævintýrum fjölskyldunnar á youtube rás Iceland Activities hér. eða hérna á Instagram þar sem má finna fallegar og frumlegar útivistarmyndir af uppátækjum fjölskyldunnar í Hveragerði.

Úlfar var hér í skemmtilegu í viðtali í morgunþætti Rásar2

Facebook ummæli