Ekki má lengur svitna og púla í æfingasölunum landsins síðan sóttvarnalæknir setti ný lög um opnun líkamsræktastöðva í haust. Og enginn veit í raun hvað þessar lokanir eiga eftir að vara lengi eða hvernig reglurnar eiga eftir að breytast.

Lóreley Sigurjónsdóttir eða Lóa, eða Lóa Zumba eins og margir Hvergerðingar kalla hana, varð því sömuleiðis að loka sinni líkamsræktarstöð Fitnessbilinu, sem hún rekur í Austurmörk í Hveragerði. Lóa bauð uppá heimazumba fyrir danshópana sína í fyrstu og annari bylgju Covid, en þegar hún sá fram á lengri lokanir varð vonlaust að skipuleggja lokuðu hópana sem í boði voru, þar sem æfingarnar þar krefjast leiðsagnar og hjálp þjálfara á staðnum.

Auðvitað gat Lóa gat ekki bara setið heima og gert ekki neitt, enda alltaf á fullri ferð. Fitnessbilið hefur alltaf verið með eina slá af fötum til sölu í afgreiðslunni og smávegis af gjafavöru, og vissi Lóa að hérna væri alveg markaður fyrir notuð föt og annan varning. Hún ákvað því að nýta tóma æfingarýmið í Austurmörkinni og opnaði fatamarkað. Hvergerðingar og nærsveitungar tóku vel í þetta og sérstaklega þar sem fólk er ekki mikið að fara á milli landshluta þessa dagana.

Núna í desember færði hún sig um set í Hveraportið, þar sem Kjöt og kúnst var á Breiðumörkinni. Það húsnæði er stærra og er því hægt að hafa markaðinn tvískiptan – listaverk, handverk og hönnun vinstra megin í húsinu og svo fatamarkað til hægri. Fólk verðleggur vörurnar og skilur þær svo eftir, svipað og gert er á loppumörkuðum í Reykjavík. Það góða við svona markaði í Covid-fjöldatakmörkunum, er að þar er auðvitað grímuskylda og Lóa er ein á staðnum að afgreiða, enginn þarf að standa vaktina á sínum bás.

Fatamarkaðurinn er opinn til 20. desember nk. að Breiðumörk 21

Afgreiðslutími:
Mánudagar, þriðjudagar og miðvikudagar kl 16 – 18
Fimmtudagar kl 18 – 21
Föstudagar kl. 14 – 18           
Laugardagar og sunnudagar 11 – 16

Lóreley og Rakel Día, dóttir hennar sem var komin til að hjálpa mömmu sinni að setja upp og gera fínt

Facebook ummæli