Sæl öll,
Krumminn var endurvakinn í prentútgáfu í vor þar sem undirrituð taldi að full þörf væri á því að halda úti miðli sem birti fréttir og aðsendar greinar úr nærsamfélaginu. En því miður eiga prentuð blöð undir högg að sækja, COVID eða ekkert COVID. Því stóð ég frammi fyrir þeirri erfiðu ákvörðun hvort hætta ætti prentun á  blaðinu og hryggir mig að segja ykkur að því miður er engin forsenda fyrir prentútgáfu blaðsins eins og er, og jólablaðið mun því ekki verða að veruleika.

Framvegis mun ég því einbeita mér að búa til öflugan fjölmiðil á www.krumminn.is. Hveragerði er hreinlega stútfullt af hæfileikaríku fólki á öllum aldri sem á skilið umfjöllun og athygli frá bæjarbúum fyrir sín verk. Eins eru félagasamtök og fyrirtæki ýmiskonar sem þurfa að koma sínum málum á framfæri beint til bæjarbúa.

Vonir mínar standa til þess að með hjálp Hvergerðinga og fyrirtækja bjóði Krumminn upp á fjölbreytt efni, fréttir, greinar og afþreyingarefni, tengt Hveragerði og nágrenni, sem nýti betur þá stafrænu möguleika sem í boði eru. Auk þess sem stefnir hann á að verða 100% umhverfisvænn, spikfeitur og pattaralegur.

Ég er innilega þakklát öllum þeim sem hafa tekið þátt hingað til, með greinum, auglýsingum og efni ýmiskonar, og treysti því að við höldum því góða samstarfi áfram. 

Ég sé allskonar tækifæri í því, að við búum til skemmtilegan og fjölbreyttan frétta- og afþreyingarmiðil saman sem við getum öll verið stolt af.

Með vinsemd,
Hrund.

Facebook ummæli