Í vetur verður boðið upp á skemmtilega tilbreytingu til útivistar í kringum Hveragerði. Sporið ætlar að leggja spor fyrir skíðandi, hjólandi og gangandi í vetur. Síðasta vetur var troðið stutt spor á golfvellinum og einungis ætlað fyrir gönguskíði en nú lengist leiðin töluvert og fleiri geta notið. Nú getum við átt von á að fólk leggi leið sína til Hveragerðis til að stunda sína hreyfingu og endi svo góðan útivistadag á einhverjum af fjölmörgum veitingastöðum bæjarins.
Við mælum með að allir sem hafa áhuga á vetrarútivist, fylgji Sporinu á facebook, en þar verður hægt að fylgjast með ástandinu á sporinu okkar og fleiri sporum sem verða í boði í kringum höfuðborgina.
 
Í tilkynningu frá D-listanum í Hveragerði segir:
Skemmtileg viðbót við þá afþreyingu sem er í boði í Hveragerði!
Bæjarráð samþykkti á fundi síðastliðinn fimmtudag samkomulag við Sporið um að hanna, leggja, kynna og sjá um Vetrarstíg í Hveragerði í janúar til mars 2021. Bæjarráð heimilaði að stígurinn yrði troðinn í allt að 12 skipti á tímabilinu. Með tilkomu sérstakrar brautar á skógræktarsvæðinu inní Dal verður til alveg nýr möguleiki á iðkun fjölbreyttar útivistar yfir vetrarmánuðina. Með samstarfi við Sporið mun þessi möguleiki hljóta góða kynningu og vonandi verða til þess að fleiri en Hvergerðingar fái notið svæðisins.

Sporið er búið til með því að draga sérhannaðan snjótroðara á vélsleða. Með þvi að búa til rétt undirlag verða svæði aðgengileg í snjó. Útivera í snævi þöktu landi er einstök upplifun sem hentar allri fjölskyldunni. Sporið hentar skíðandi, hlaupandi og hjólandi á öllum aldri.

Meðfylgjandi er tillaga að braut sem Sporið mun leggja í vetur.

Svona lítur sporið út nýtroðið. Mynd: Sporið
Mynd: Sporið

Facebook ummæli