Á tveimur fundum bæjarráðs Hveragerðis nú í sumar samþykkti meirihluti Sjálfstæðisflokksins tvo samninga sem eru að mati undirritaðra afar óhagstæðir fyrir bæjarfélagið og þar með íbúa. Auk þess teljum við það verulegt álitamál hvort að sveitarfélag eigi yfirhöfuð að gera slíka samninga.

Samningur við Reykjadalsfélagið
Á fundi bæjarráðs þann 18. júní sl. var tekinn fyrir aðstöðu- og þjónustusamningur við Reykjadalsfélagið, handahafa lóðarinnar Árhólma 1 í Ölfusdal sem er við upphaf gönguleiðarinnar inn í Reykjadal. Meirihluti Sjálfstæðisflokksins stóð einn í samningaviðræðum við Reykjadalsfélagið en fulltrúar minnihlutans höfðu ekki aðkomu að þeim viðræðum. Fyrstu drög að samningi voru lögð fyrir bæjarráð þann 18. júlí 2019. Megininntak þessara fyrstu draga var að Hveragerðisbær myndi fela Reykjadalsfélaginu einkarétt á innheimtu bílastæðagjalda, sem sveitarfélagið áformaði að innheimta á lóðinni, og var lagt upp með það í samningnum að félagið tæki meirihluta þeirra tekna í sína sjóði. Það var mat bæjarfulltrúa Okkar Hveragerðis að það væri óeðlilegt að einkaaðilar tækju meirihluta tekna af bílastæðagjöldum á meðan tilgangurinn með slíkum gjöldum væri að afla tekna til að byggja upp svæðið í Reykjadal og nágrenni, s.s. að vernda umhverfið og byggja upp aðstöðu fyrir stöðugan straum ferðamanna sem fer um svæðið. Því höfnuðu bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis þessari nálgun í samningum og gerðu auk þess athugasemdir við að markmið samningsins væru óljós.

Næstu drög samningsins voru svo lögð fyrir bæjarráð nú í sumar. Sem betur fer hafði meirihluti Sjálfstæðismanna fallið frá fyrri tillögu sinni um að veita Reykjadalsfélaginu einkarétt á innheimtu bílastæðagjalda og að félagið tæki meira en helming tekna til sín. En, þess í stað setti meirihlutinn inn í samninginn að Hveragerðisbær myndi greiða Reykjadalsfélaginu kr. 1.450.000 á mánuði fyrir þjónustu félagsins. Það þýðir að fyrir hvern dag mun Hveragerðisbær greiða tæplega kr. 50.000 fyrir þjónustuna eða í heild um 174 m.kr. fyrir þau tíu ár sem samningurinn á að gilda. Hvorki meira né minna! Fulltrúi Okkar Hveragerðis í bæjarráði greiddi atkvæði gegnum þessum samningi en hann var engu að síður samþykktur af meirihluta Sjálfstæðisflokksins.

Og hvaða þjónusta er það sem íbúar Hveragerðis munu greiða kr. 50.000 á dag fyrir til Reykjadalsfélagsins næstu 10 árin? Það er rekstur salernisaðstöðu fyrir ferðamenn, aðstaða fyrir bílastæðaverði Hveragerðisbæjar, rekstur þjónustumiðstöðvar, umhirða á göngustígum Árhólmasvæðisins og bílastæðum og aðgang Hveragerðisbæjar að húsnæðinu tíu sinnum á ári.

Að mati undirritaðra er mikilvægt að tryggja salernisaðstöðu fyrir þá ferðmenn sem eiga leið um svæðið en það voru margar aðrar leiðir færar til að leysa það fyrir lægri upphæð á mánuði. Það er líka óljóst hvaða tilgangi þjónustumiðstöð sem Hveragerðisbær greiðir Reykjadalsfélaginu fyrir að reka við Árhólma eigi að þjóna? Hveragerðisbær rekur nú þegar upplýsingamiðstöð í Sunnumörk sem er fullfær um að gefa ferðamönnum allar þær upplýsingar sem þeir leita eftir um Hveragerði og nærsvæði. Landverðir, sem eru á vegum Umhverfisstofnunar í Reykjadal á sumrin, hafa meðal annars það hlutverk að fræða gesti um svæðið og þar sem Reykjadalur og nágrenni er í friðlýsingarferli er fyrirséð að landverðir komi til með að hafa meiri viðveru á svæðinu yfir allt árið. Það verður því að öllum líkindum áfram hlutverk Umhverfisstofnunar að sjá um aukna fræðslu og gæslu á svæðinu sem líklega myndi falla undir rekstur þjónustumiðstöðvar og því rétt að Reykjadalsfélagið snúi sér þangað varðandi samning um slíkan rekstur. Einnig má benda á að til eru rafrænar lausnir fyrir innheimtu bílastæðagjalda sem krefjast ekki viðveru bílastæðavarða. Ekki er ólíklegt að slíkar lausnir verði fyrir valinu þegar kemur að því að sveitarfélagið velji hvernig skuli standa að innheimtu bílastæðagjalda og því engin þörf á aðstöðu fyrir bílastæðaverði á svæðinu. 

Okkur þykir einnig mjög miður að meirihluti Sjálfsstæðismanna í Hveragerði hafi ekki farið í samstarf um uppbyggingu á Árhólmasvæðinu við Sveitarfélagið Ölfus og Landbúnaðarháskóla Íslands sem eru stórir hagaðilar í þessu máli. Það liggur fyrir að allir ferðamennirnir sem fara um Árhólmasvæðið og munu greiða bílastæðagjald til Hveragerðisbæjar eru á leiðinni í Reykjadalinn, sem er innan sveitarfélagamarka Ölfuss og í eigu Landbúnaðarháskólans. Við í Okkar Hveragerði teljum að slíkt samstarf um uppbyggingu og rekstur bílastæðis og salerna hefði verið mun affarasælla og réttlátara fyrir alla hagaðila svæðisins heldur en núverandi fyrirkomulag býður upp á.

Þess má geta að undanfarin ár hafa árlega farið um svæðið um 300.000 gestir á leið sinni upp í Reykjadal og er viðbúið að þessi fjöldi ferðamanna muni áfram fara um svæðið þegar veirufaraldurinn hefur gengið yfir heimsbyggðina og ferðamannaiðnaðurinn hefur náð sér á strik að nýju. Það eru því mikil viðskiptatækifæri fyrir lóðarhafa að Árhólmum 1 og hefur Reykjadalsfélagið kynnt bæjarfulltrúum spennandi hugmyndir um uppbyggingu á lóðinni sem án efa munu draga að gesti og stuðla að farsælum rekstri. Það er því á engan hátt réttlætanlegt að Hveragerðisbær styrki sérstaklega eitt fyrirtæki í bænum umfram annað á þann hátt sem lagt er upp með í samningum.

Kaup á ónýtu húsi
Á fundi bæjarráðs Hveragerðis 20. ágúst sl. ákvað meirihluti Sjálfstæðisflokksins að kaupa ónýtt hús í Hveragerði, Bláskóga 1, á 19,5 m.kr. Húsið er 50 fermetrar að stærð og fasteignamat þess er tæpar 16 m.kr. Stefnt er að því að rífa húsið á kostnað Hveragerðisbæjar og úthluta lóðinni til nýbyggingar, líklega fyrir parhús. En hvernig lítur þá þetta reikningsdæmi út? Kostnaður við niðurrif hússins og förgun byggingarefnis getur líklega orðið um 2-4 m.kr. fyrir Hveragerðisbæ. Mögulega gæti bærinn fengið um 9-10 m.kr. í byggingargjöld ef byggt verður parhús á lóðinni. Þá verður fyrirséð tap bæjarins af þessum samningi 12-13 m.kr.!

Fulltrúi Okkar Hveragerðis í bæjarráði greiddi atkvæði gegn þessum samningi en hann var samþykktur af meirihluta Sjálfstæðisflokksins. Ekki er ljóst hvers vegna Sjálfstæðismenn töldu mikilvægt að kaupa þetta ónýta hús með svo miklu tapi sem raun ber vitni, tekjutapi sem bitnar á sjóðum sem íbúar Hveragerðis eiga. Ef tilgangurinn hefur verið að kaupa hús í lélegu ásigkomulagi til að rýma fyrir nýju húsi þá er það einfaldlega ekki hlutverk sveitarfélags að standa í slíkum gjörningum. Eigendur fasteigna bera ábyrgð á sínum eignum og það er ekki hlutverk hins opinbera, í þessu tilfelli Hveragerðisbæjar, að leysa einstaka eigendur undan skyldum sínum á þennan hátt. Fjármagn Hveragerðisbæjar á að nota í þjónustu við íbúa Hveragerðis.

Njörður Sigurðsson
Þórunn Pétursdóttir
bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis

Njörður Sigurðsson
Þórunn Pétursdóttir

Facebook ummæli