Hvergerðingar ættu ekki að verða svangir á næstunni. Enn bættist við í fjölbreytta veitingasöluflóru bæjarins í gær þegar Guðjóna Björk Sigurðardóttir lét drauminn rætast og opnaði stað með hollum skyndibita. Staðurinn kallast Gauja og er í sama húsnæði og skátaheimilið á Breiðumörk 22. „Fyrsti dagurinn fór fram úr öllum mínum væntingum“ sagði Guðjóna og þurfti hún að loka fyrr þar sem allt hráefni hreinlega kláraðist á mettíma. „Hugmyndafræðin er einföld. Fallegur, góður og hollur skyndibiti. Viltu borða hollan mat? Viltu keto eða ertu vegan? Telurðu macros? Ég ætla leggja mig fram að geta þjónað ykkur öllum með hollum og hreinum mat helst úr héraði, því nær því betra“.

Engin mynd náðist af henni við opnunina enda öll fjölskyldan á bólakafi að afgreiða og græja bókhveitivefjur sem Guðjóna býr til sjálf, ofan í röðina sem beið fyrir utan. Enn sem komið er er staðurinn takeaway (eða útréttistaður á íslensku) því ekki er gert ráð fyrir gestum í sæti. Maturinn er borinn fram í pappaboxum en í boði er að viðskiptavinir komi með eigin ílát og taki þennan fallega litríka mat með heim eða í vinnuna. Til hamingju með þennan fína draum í dós.

Hægt er að fylgja Gauju á instagram og Faceboook.

Facebook ummæli