Á laugardaginn kemur er fyrsti leikur Hamars í úrvalsdeildinni í blaki en mikil pressa er á nýliðunum miðað við nýjustu fréttir.  Blakfréttir.is óskuðu eftir spá fyrirliða og þjálfara í úrvalsdeildinni og var niðurstaðan sú að Hamri er spáð titlinum.  Hamar fékk 111 stig í kjörinu en HK komu fast á hæla þeirra með 109 stig, næstir komum svo Afturelding og KA með 98 og 95 stig en þessi 4 lið skáru sig töluvert úr hópnum og þykja því líkleg til að vera í toppbaráttunni.
Athygli vekur að gestum Hamars á laugardaginn, Þrótti frá Neskaupsstað, er einungis spáð 5. sæti en þeir voru í efsta sæti deildarinnar í fyrra þegar deildakeppnin var blásin af vegna Covid faraldursins.
Það verður því spennandi að fylgjast með Hamarsliðinu á laugardaginn og hvetjum við bæjarbúa til að mæta og styðja sitt lið. Leikurinn fer fram í Skólamörk og hefst klukkan 19:00. Miðaverð er 500 kr. og gætt verður að sóttvörnum á keppnisstað.

Facebook ummæli