Viðbygging við Grunnskólann í Hveragerði er nú óðum að taka á sig mynd. Verkinu miðar vel og fátt ætti að koma í veg fyrir að kennsla hefjist í hinu nýja húsnæði við upphaf næsta skólaárs.

Í viðbyggingunni eru sex nýjar kennslustofur með tilheyrandi millirýmum sem gengt er í úr öllum kennslustofum. Stór sameiginleg rými eru í byggingunni og á eftir hæð skapast skemmtilegir möguleikar framan við stofurnar í miðrými sem þar er, bjart og skemmtilegt.  

Öll aðstaða í skólanum mun taka stakkaskiptum til hins betra og svo er nú ekki verra að útsýnið úr þessum stofum er stórkostlegt og staðsetningin (í Lystigarðinum við bakka Varmár) einstök. Mikið er lagt í hönnun lóðar og að byggingin falli vel að umhverfi sínu.  Í útboðinu er gert ráð fyrir lóðafrágangi norðan við bygginguna enda er byggingin nú fullkláruð í þá áttina. 

Samkvæmt framtíðar uppbyggingaráformum eiga enn tveir áfangar eftir að bætast við skólabygginguna, báðir í vesturátt. Hönnunarforsendur gera ráð fyrir að þegar skólinn verður fullbyggður muni hann rúma þrjár bekkjardeildir í hverjum árgangi og að heildar nemenda fjöldi geti verið á milli 6-700.  

Meðfylgjandi myndir eru teknar á verkstað  síðasta föstudag.  Dr. Maggi Jónsson teiknar viðbygginguna en hann hefur teiknað allar fyrri viðbyggingar við skólann. Þráinn Hauksson frá Landslagi ehf sá um hönnun lóðar og umhverfis. Byggingaraðili er Reirverk ehf.

Nýja viðbyggingin fer yfir Skólamörkina þannig að sú gata má muna betri daga.

Stiginn milli hæða
Mikilvægt að valinn sé réttur litur á gólfdúkinn. Smáatriðin skipta máli.


Þrjár kennslustofur eru á hvorri hæð og á mllli þeirra eru svona lítil rými sem nýst geta með margvíslegum hætti i skólastarfinu. Hugað er sérstaklega að hljóðvist þannig að með þetta útsýni og góða hljóðvist þá er þetta nú ansi notalegt.
Opið fjölnotarými á efri hæð getur nýst til ýmissa góðra hluta.
Ég er svo yfir mig hrifin af útsýninu úr nýju viðbyggingunni, fjallasýn, Sundlaugin og Varmá. Já og líka bílastæðið og miðbærinn !
Skólastjórinn, skipulagsfræðingurinn, arkitektinn hönnuðir lóðarinnar og fulltrúar Reirverk sem sjá um byggingu hússins.

Facebook ummæli