Fyrsta karfan á frisbígolfvellinum er komin upp undir Hamrinum eftir töluverða vinnu við að setja körfurnar saman hjá stjórn Frisbígolffélags Hveragerðis. Við bíðum nú spennt eftir því að fá að prófa þetta skemmtilega sport sem stundum er kallað Folf, í skóginum okkar.

Yfir 60 frisbígolfvellir eru á landinu og hefur þessi íþrótt sjaldan verið vinsælli en sumir vilja kalla þetta góðan göngutúr með tilgangi.

Leikreglur:
Folf er spilað líkt og hefðbundið golf nema með frisbídiskum. Köstin eru talin sem tekur að koma disknum í rétta körrfu og takmarkið að kasta allar brautir í sem fæstum tilraunum. Eftir fyrsta kast er það næsta tekið þar sem diskurinn liggur og þarf sá fótur sem er nær körfu að vera þar sem diskurinn lá. Skipta má um diska á milli kasta. Sá spilari sem lengst er frá körfu tekur fyrsta kast.

Tillitsemi er stór hluti af leiknum. Sanngjarnt er að mótspilari þinn fái að kasta án truflunar, það sama myndir þú vilja. Ekki taka kast fyrr en þú er viss um að flug disksins og lending trufli ekki hina spilarana eða fólk sem er á svæðinu.

Góð regla er að stíga ekki í blómabeð eða skemma gróður.

Göngum vel um, skiljum ekki eftir rusl og sýnum tillitsemi með því að kasta ekki disk í átt að fólki.

Góða skemmtun

Facebook ummæli