Elísabet Jökulsdóttir er nýflutt í Hveragerði og má hlusta á þetta skemmtilega viðtal við hana þar sem hún segir bæjarbúa taka vel á móti furðufuglum í bæinn.
Viðtalið á Rás2 má hlusta á hér.

Elísabet Jökulsdóttir rithöfundur og miðbæjardrottning seldi nýverið töfrahúsið sitt á Framnesvegi og flutti til Hveragerðis. Hún segist í fyrstu hafa kviðið fyrir því að vera merkt sem furðufugl í bænum.

„Ég flutti til Hveragerðis til að fara á heilsustofnun og í sundlaugarnar en það lokaði allt þegar ég fór í bæinn. En ég er að ganga um og kynnast fólki,“ segir Elísabet Jökulsdóttir skáld sem íbúar Hveragerðis, nýju nágrannar hennar, hafa tekið fagnandi. Það var óþarfi að óttast að hún myndi ekki passa inn í samfélagið. „Ég var að segja það í gær að ég væri hrædd um að vera furðufugl en tvær konur héðan sögðu að Hvergerðingar væru sérfræðingar í að taka á móti furðufuglum. Svo ég bíð bara eftir fánahyllingu og lúðrasveit,“ segir hún glettin.

Elísabet byrjaði sjálf að venja komur sínar í bæinn þegar hún var að jafna sig eftir skaðlegt ástarsamband. „Ég var að búa til nýtt pláss í heiminum og kom hingað í fimm sumur, alltaf einn mánuð á ári, og það endaði með að ég bjó til listaverk,“ segir hún. Við bakka Varmár stendur nefnilega steinn eða stóll þar sem hægt er að setjast og fylgjast með ánni streyma, en stóllinn er hluti af listaverki skáldkonunnar. „Verkið heitir Þetta líður hjá, eins og áin. Það er Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri sem greip þetta á lofti og lét framkvæma. Við Matthías Rúnars myndhöggvari eigum þetta saman.“

En líður allt hjá? „Áin líður allavega hjá. Stundum þurfum við að stoppa og staldra við og áin kennir okkur það.“

Það er bjartara yfir henni síðan hún flutti sig um set en stundum fær hún heimþrá. „Ég hef alltaf haft áhuga á heimþrá svo kannski fer maður að skrifa um það. Ég hef þjáðst af heimþrá síðan ég var krakki og þess vegna bjó ég í þrjátíu ár heima hjá mér,“ segir hún. En Hveragerði tekur hún opnum örmum og hug. „Maður verður að hlusta á hvað Hveragerði ætlar að segja mér frekar en að ég segi Hveragerði eitthvað. Það er ekki mín sterka hlið samt, mig getur gripið svo mikið málæði en ég ætla að hlusta á gufurnar í fjallinu.“

Nýja bókin hennar Aprílsólarkuldi, sem kom út á dögunum, er að hluta til byggð á hennar eigin lífi en hún notað aðferðir skáldskaparins til að breyta eigin reynslu í skáldskap. „Þá verður útkoman allt öðruvísi, það er svolítið merkilegt. Skáldskapurinn er gleraugu sem maður getur notað,“ segir hún. Sagan segir frá stúlku sem fær áföll sem hún hefur ekki tækifæri til að vinna úr og afleiðingarnar eru að hún veikist á geði. „Þetta er yndisleg bók, ég var að lesa hana um daginn,“ segir Elísabet stolt. „Það er magnaður endir á bókinni.“

Rætt var við Elísabetu Jökulsdóttur í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.
Mynd af hveragerdi.is

Facebook ummæli