Fyrir tveimur vikum var Dagný Lísa Davíðsdóttir, körfuboltakona úr Hveragerði, veik af Covid-19, en þrátt fyrir það var hún mætt á völlinn á laugardag, að spila sinn fyrsta heimaleik fyrir Háskólann í Wyoming í Bandaríkjunum á móti Denver. Dagný var í byrjunarliðinu og átti mjög góðan leik og sigraði liðið hennar, Wyoming Cowgirl, með 79 stigum á móti 67. Dagný skoraði 14 stig og átti 11 fráköst.

Dagný segir að það hafi ekki verið neitt grín að koma sér af stað aftur eftir að hafa setið inni í tvær vikur og verið veik í ofanálag. En heilsan er öll að koma til baka. Hún segist enn eiga langt í land en þetta sé allt að koma.

Það er góð tilbreyting að geta birt nýja og jákvæða íþróttafrétt, þar sem allt íþróttastarf afreksfólks liggur niðri á Íslandi. Dagný segir að það sé vel passað upp á allar sóttvarnir hjá liði sínu og leikmenn allra liða eru skyldaðir í Covid-próf þrisvar í viku. Svo eyða þær mestum tíma saman með hvor annarri og reyna að búa til sína eigin „búbblu“ og hitta því sem fæsta.

Dagný getur því miður ekki komið heim í Hveragerði um jólin vegna Covid ástandsins og segir að jólin verði víst á Face-Time með fjölskyldunni, við matarborðið á aðfangadag.

Næsti leikur er á miðvikudag eða miðvikudagsskvöldið 9. desember réttara sagt, gegn Gonzaga Bulldogs sem er eitt sterkasta liðið í deildinni. Og því má búast við hörkuleik, og eru örugglega margir Hvergerðingar til í að vaka fram eftir.
Hægt verður að fylgjast með leiknum hér.

Dagný Lísa í Wyoming Cowgirl búningnum.

Facebook ummæli