Krummanum barst eftirfarandi fréttatilkynning og meðfylgjandi er áskorun samtaka íslenskra handverksbrugghúsa á dómsmálaráðherra:

Gæti bjargað tugum starfa um allt land
Frumvarp um íslenska netverslun með áfengi og heimild smábrugghúsa til beinnar sölu gæti varið afkomu frumkvöðlafyrirtækja og tugi starfa um allt land, að sögn stjórnar Samtaka íslenskra handverksbrugghúsa. Samtökin afhentu dómsmálaráðherra áskorun á ráðherra, þingmenn og sveitarstjórnarfólk í hádeginu, og hvöttu til þess að málið yrði lagt fram á nýjan leik. 

„Íslensk handverksbrugghús eru nú á þriðja tug talsins, tryggja um 200 manns störf í sinni heimabyggð og skila tugum milljóna í skatttekjur á ári,“ segir Sigurður P. Snorrason, formaður samtakanna. 

Hann bendir á að brugghúsin framleiði vandaðar og eftirsóttar íslenskar vörur og dragi til sín fjölda íslenskra og erlendra gesta. 

„Þannig eru brugghúsin oft mikil lyftistöng fyrir lítil samfélög í nærumhverfi sínu, sem mörg teljast til brothættra byggða,“ segir Sigurður.

Breytingar í þágu umhverfisins og neytenda
Sigurður segir Covid-19 faraldurinn með tilheyrandi hruni í ferðaþjónustu hafa veruleg áhrif á mörg lítil frumkvöðlafyrirtæki í greininni. Þannig hafi gestafjöldi minnkað til muna og brugghúsin geti einungis keppt um mjög takmarkað hillupláss í áfengisverslunum ríkisins til að selja vörur sínar.

„Með heimild til sölu í netverslun og á framleiðslustað fengist varan nær framleiðslunni með verulega minnkuðu fótspori og á hagkvæmari hátt, með tilheyrandi jákvæðum áhrifum fyrir neytendur, umhverfið og afkomu brugghúsanna,“ segir Sigurður. 

Hann segir ljóst að núverandi kerfi stuðli að óeðlilegri mismunun, enda geti erlendir aðilar óhindrað selt íslenskum neytendum áfengi í netverslun. 

„Ef íslenskir framleiðendur vilja gera slíkt hið sama þurfa þeir að flytja vörur sínar til útlanda, til þess eins að þær verði fluttar heim aftur af erlendri netverslun með tilheyrandi kolefnisspori.“

Málið sameinar byggða- og forvarnarstefnu
Sigurður bendir á að breytingarnar gætu ekki aðeins orðið til happs fyrir atvinnulíf í brothættum byggðum, heldur mætti samhliða lögfesta aukið aldurseftirlit og tryggja áframhaldandi skatttekjur sem nýst gætu í forvarnar- og lýðheilsustarf. 

„Í síðasta frumvarpi ráðherra var gert ráð fyrir leyfissviptingu og refsiábyrgð vegna ófullnægjandi aldurseftirlits. Við fögnum slíkum kröfum og bendum á að engin slík ákvæði gilda um erlendar netverslanir,“ segir Sigurður. 

Hann ítrekar að bein sala í handverksbrugghúsum muni á engan hátt auka aðgengi ungs fólks að áfengi.

„Vörurnar yrðu einungis seldar á stöðum þar sem fólk á löglegum áfengiskaupaaldri má koma saman, rétt eins og gildir á vínveitingastöðum. Eina breytingin er sú að dósin er lokuð,“ segir Sigurður. 

Hann ítrekar mikilvægi þess að leggja áframhaldandi áherslu á forvarnir og lýðheilsu. 

„Slíku opinberu starfi má auðvitað sinna enn betur ef tekjur af sölu áfengis renna í auknum mæli í vasa íslenskra skattgreiðenda, frekar en erlendra fyrirtækja. Tillagan er því bæði í senn í innblásin af hag frumkvöðlafyrirtækja og starfsmanna þeirra, en ekki síður sjónarmiðum um byggðastefnu og aukna áherslu á forvarnir og aldurseftirlit.“ 

Fh. Samtaka íslenskra handverksbrugghúsa
Sigurður P. Snorrason formaður
Laufey Sif Lárusdóttir ritari
Haraldur Þorkelsson gjaldkeri
Jóhann Guðmundsson meðstjórnandi

Fulltrúar Samtaka íslenskra handverksbrugghúsa, Sigurður P. Snorrason og Laufey Sif Lárusdóttir, afhentu Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra áskorunina þann 8. september 2020.

Facebook ummæli