Á aðalfundi Íþróttafélagsins Hamars sem haldinn var í dag var Þórhallur Einisson kjörinn formaður, Íris Brá Svavarsdóttir gjaldkeri og Dagrún Ösp Össurardóttir, Laufey Sif Lárusdóttir og Þorsteinn T. Ragnarsson meðstjórnendur.

Fyrsta mál á dagskrá fundarins var skýrsla formanns þar sem Þórhallur þakkaði m.a. sjálfboðaliðum, iðkendum, þjálfurum, bæjaryfirvöldum sem og öllum samstarfs- og styrktaraðilum Hamars fyrir samstarfið á liðnu ári. Nefnt var að aðalstjórn væri búin að leggja töluverða vinnu á síðastliðnu ári í að uppfæra lög félagsins sem miða öll að því að gera stjórnun þess skilvirkari og auka samvinnu í félaginu öllu. Meðal verkefna næsta starfsárs er að ljúka stefnumótun félagsins en þar er mikilvægt að Íþróttafélagið eigi samtal við bæjarbúa, bæjaryfirvöld, samstarfsaðila og aðra velunnara félagsins til að auka veg og vöxt þess til framtíðar.

Því næst lagði Íris Brá, gjaldkeri Hamars, fram reikninga félagsins sem voru samþykktir eftir umræður um þá og skýrslu formanns. Í máli Írisar kom fram rekstur félagsins gangi vel og var hagnaður af félaginu 1,6 milljónir þrátt fyrir auknar fjárveitingar til deilda félagsins m.a. vegna COVID-19 og aukningu á meistarflokkum félagsins.

Álfhildur og Sandra Sigurðardóttir.

Álfhildur Þorsteinsdóttir kom því næst fram fyrir hönd fimleikadeildarinnar til að heiðra Söndru Sigurðardóttur. Sandra á mikinn heiður af uppbyggingu fimleikadeildarinnar og stóð sig með mikilli prýði fyrst sem þjálfari en lengst af sem yfirþjálfari og framkvæmdastjóri deildarinnar. Söndru var þakkað kærlega fyrir vel unnin störf og óskað velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Pálmi Geir Jónsson – Íþróttamaður Hamars 2020

Þá var komið að tilkynningu um íþróttamann Hamars 2020 sem er Pálmi Geir Jónsson körfuknattleiksmaður með meistaraflokki Hamars. Pálmi Geir er einn af burðarstólpum liðsins, fyrirmynd innan vallar sem utan og einn reyndasti leikmaður liðsins. Við óskum Pálma Geir innilega til hamingju með titilinn.

Í hléi var boðið upp á kaffihlaðborð sem sunddeildin stóð myndarlega að. Eins glöddu Dagný og Unnur Birna Björnsdætur fundargesti með ljúfum tónum sem hlutu góðar viðtökur. Einnig stýrðu þær afmælissöng í lokin en einn fundargesta, Jakub Madej – Blakmaður Hamars 2020 – fagnaði einmitt 22 ára afmæli í dag.

Umfangsmiklar lagabreytingar voru næst á dagskrá sem töluverður tími fór í að ræða og afgreiða. Því næst var gengið til kosninga en allir stjórnarmeðlimir voru í endurkjöri nema Ágúst Örlaugur Magnússon. Ágúst er formaður Knattspyrnudeildar Hamars og lagabreytingar á þingi gera það að verkum að formenn deilda eru nú partur af aðalstjórn og geta því ekki gefið kost á sér í framkvæmdastjórn félagsins. Þorsteinn T. Ragnarsson var kosinn nýr inn í stjórn í hans stað.

Fráfarandi stjórn Hamars 2020-2021

Í lok fundarins fór Guðríður Aadnegard, sem stýrt hafði fundinum fram að þessu af mikilli röggsemi, yfir starfsemi HSK á árinu og þau tækifæri sem Íþróttafélagið Hamar hefði með aðild sinni að HSK. Kom hún víða við og ljóst að Íþróttafélagið getur gert betur að sækja í þá sjóði og aðstoð sem þar er að finna.

Formaður lauk fundi með því að færa Ágústi Örlaugi þakkir fyrir óeigingjarnt og gott starf hans í þágu Hamars síðastliðin ár og þakka fundargestum fyrir komuna

Facebook ummæli