Í sveitarfélögum kjósa íbúar sér fulltrúa til að fara með vald sitt við rekstur viðkomandi sveitarfélags. Þetta fyrirkomulag er kallað fulltrúalýðræði, enda sækja þeir aðilar sem kjörnir hafa verið til setu í sveitarstjórnum umboð sitt til íbúa sveitarfélagsins, og fara með vald sitt fyrir þeirra hönd. Þannig er fulltrúalýðræðið í eðli sínu valdaframsal frá hinum almenna borgara til kjörinna fulltrúa. Í sveitarfélögum er svo þetta umboð endurnýjað á fjögurra ára fresti. Kjörnum fulltrúum eru svo settar ýmsar skorður um hvernig þeir fara með þetta vald sem þeim er fengið. Þannig eiga kjörnir fulltrúar að fara að þeim lögum sem stjórnsýslunni eru settar, taka ákvarðanir sem byggja á almannahagsmunum og að ákvarðanir séu rannsakaðar til hlítar, þær séu byggðar á jafnfræði og rökum og að almennt sé gagnsæi í öllum málum stjórnsýslunnar.

Dæmisaga úr Hveragerði
Nýlegt dæmi um meðferð valds, eða öllu heldur um hvernig kjörnir fulltrúar eiga ekki að fara með vald, er að finna í Hveragerði. Sú dæmisaga umhverfist um tiltölulega lítið og einfalt mál en hefur orðið að flóknu og ógagnsæju máli í meðferð meirihluta Sjálfstæðisflokksins í Hveragerði. Dæmisagan sem hér fer á eftir er um reglur og úthlutun leyfa til reksturs matarvagna í sveitarfélaginu.

Reglur verða til
Á síðasta ári ákvað bæjarstjórn að setja reglur utan um rekstur matar- og söluvagna (samþykkt um götu- og torgsölu) eftir að erindi barst bæjaryfirvöldum um áhuga rekstraraðila til að koma slíkum rekstri á koppinn. Bæjarstjóra var falið að gera drög að reglum. Fyrstu drögin voru þó þannig að erfitt hefði verið fyrir flesta rekstraraðila að reka matarvagn undir þeim skilyrðum sem voru í þeim.

Reglurnar voru svo samþykktar í október 2020 og voru þá verulega breyttar frá því sem þær voru í upphafi eftir meðferð bæjarfulltrúa. Það sem eftir stóð og var ekki áhugi á að breyta hjá meirihluta Sjálfstæðisflokksins var að ekki mátti tengja vagnana við vatns- og fráveitu og leyfisgjald fyrir langtímaleyfi sölu- og matarvagna var verulega hátt og ekki í takti við gjöld annarra sveitarfélaga, eða kr. 300.000 á ári. Ítrekað var meirihlutinn spurður út í þessi tvö atriði en lítið var um svör. Rétt er að benda á að um innheimtu gjalda hjá sveitarfélögum gildir að ekki má innheimta hærri gjöld fyrir þjónustuna en það sem kostar að veita hana. Í þessu tilfelli þýðir það að aðeins má taka gjald fyrir þann kostnað sem sveitarfélagið ber af leyfisveitingunni. Um þetta háa gjald gat meirihluti Sjálfstæðisflokksins ekki svarað fyrir. Auk þess benti undirritaður á við afgreiðslu reglnanna í bæjarráði að við úthlutun leyfa, sem eru takmörkuð gæði, þurfi mat á umsóknum að byggjast sem mest á hlutlægu mati en ekki huglægu eins og gert er ráð fyrir í reglunum. Slíkt er ógagnsætt.

Samráðsferli vantaði
Margt í aðdraganda að setningu reglnanna má gagnrýna og er það mat undirritaðs að málið hefði mátt vinna miklu betur. Í ljósi þessarar reynslu lagði bæjarmálafélagið Okkar Hveragerði fram tillögu á fundi bæjarstjórnar í janúar síðastliðnum að reglur og samþykktir sem Hveragerðisbær ætlar að setja fari í opið umsagnarferli meðal íbúa. Þannig væri með samráði við íbúa hægt að gera stefnumarkandi reglur og samþykktir sveitarfélagsins betri og að tryggja að öll sjónarmið sem máli skipta komi fram við vinnslu mála. Af umræðum í bæjarstjórn að ráða voru aðrir bæjarfulltrúar hræddir við að slíkt samráð myndi flækja málin og það myndi verða til þess að lengja afgreiðslu á reglum og samþykktum. Í þessari afstöðu felst töluvert skilningsleysi og mögulega vantrausti á eðli samráðs við íbúa (sem reyndar er hvatt til í sveitarstjórnarlögum). Þess má geta að málinu var vísað til umræðu í bæjarráði og hefur málið einu sinni verið rætt á fundi og ekkert gerst í málinu síðan.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið á móti matarvögnum
„Ég verð að viðurkenna að í fyrstu var ég frekar andvígur því að leyfa slíka starfsemi og forsendurnar voru þær að hér hafa aðilar verið að reyna að reka og byggja upp starfsemi þar sem lagt er í verulega vinnu og fjárfestingar til að koma henni á koppinn.“ Svo skrifaði oddviti Sjálfstæðisflokksins í Hveragerði og forseti bæjarstjórnar á Facebook-síðuna Hvergerðingar fyrir nokkru og vísaði þannig í að rekstur í húsum með grunni væri meira virði en rekstur í vögnum á hjólum. Á sama hátt hafði bæjarstjóri tjáð sig nokkrum misserum áður og sagði m.a.: „Við þá sem hafa haft samband við mig hef ég sagt að ég myndi sennilega ekki mæla með svona vögnum en hef hvatt þá til að senda erindi til bæjarráðs.“ Þannig er ljóst að meirihluti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn var ekki hlynntur að heimila rekstur slíkra sölu- og matarvagna. Það skýrir líklega hvers vegna fyrstu drög að reglum um götu- og torgsölu voru hamlandi fyrir rekstraraðila og hvers vegna samþykktar reglur eru enn nokkuð hamlandi. Þessi skrif leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í Hveragerði eru líka afhjúpandi um að meirihlutanum skortir vilja og sýn til þess að styðja við nýsköpun og fjölbreyttara atvinnulíf í bæjarfélaginu.

Smábæjarstjórnsýslan
En það er meira í skrifum forseta bæjarstjórnar og oddvita Sjálfstæðisflokksins í Hveragerði sem er afhjúpandi um hvernig stjórnsýslan er undir meirihluta Sjálfstæðisflokksins og hvernig mál eru afgreidd: „Nú er það engin launung að drifkrafturinn á bakvið þetta mál allt saman var í raun einn einstaklingur í bæjarfélaginu sem hafði áhuga á að setja upp matarvagn og hafði mjög gott orð á sér fyrir góðan mat og kunnáttu á því sviði og hefur staðið mjög vel undir þeim væntingum. Bæjarstjórn var því einhuga um að ganga þessa braut til enda, setja reglur, og skapa þannig grundvöll fyrir starfseminni.“ Þarna opinberar forsetinn hvernig ákvarðanir eru teknar í okkar litla bæjarfélagi, þar sem flestir þekkja flesta: Af því að manneskjan sem um ræðir hafði gott orð á sér fyrir góðan mat og kunnáttu á því sviði var bæjarstjórn einhuga um að skapa grundvöll fyrir starfseminni. Eins gott að bæjarstjórn þekkti til viðkomandi aðila, annars hefði erindinu verið hafnað strax, eða hvað? Slík stjórnsýsla er auðvitað engan vegin boðleg, og sveitarfélag getur ekki boðið íbúum upp á slíka henti-stjórnsýslu.

Babb í bátinn
Í lok marsmánaðar kom í ljós að sá aðili sem rak matarvagninn Gauju hefði ákveðið að hætta rekstri. Í kjölfarið birti oddviti Sjálfstæðisflokksins og forseti bæjarstjórnar varnarræðu meirihlutans á opinni Facebook-síðu Hvergerðinga, sem er vitnað til hér að framan. Í varnarræðunni kemur fram að meirihlutanum finnist að sér vegið, í raun hafi meirihlutinn gert allt sem í hans valdi standi til að mæta kröfum viðkomandi aðila. Af skrifum forsetans virðist meirihluti Sjálfstæðisflokksins í Hveragerði líta svo á að hann sé orðið fórnarlamb í þessu máli. Sem sagt að sá sem fer með valdið er fórnarlamb, svo öfugsnúið sem það nú hljómar.

„Þetta er, án djóks, instant classic facepalm material. Kapítalistinn var sem sagt í upphafi á móti þessu því einhver fann leið til að selja vöru með hagkvæmari hætti“, skrifaði einn Hvergerðingurinn á Facebook undir færslu forsetans. Það er nefnilega ekki nóg að tala um það á hátíðlegum stundum að ætla að styðja við og ýta undir meiri fyrirtækjarekstur hér í bæ og hampa einkaframtakinu, heldur þarf að sýna það í verki líka. Og það er heldur ekki sveitarfélagsins að ákveða að rekstur í fasteign með föstum grunni sé betri en rekstur fyrirtækis í vagni á hjólum. Sveitarfélagið á einfaldlega að skapa aðstæður þar sem allar tegundir rekstrar, í söluvögnum eða í fasteignum, hefur tækifæri til að blómstra.

Reykfyllt bakherbergi?
En hvernig hefur meirihluti Sjálfstæðisflokksins svo reynt að afgreiða málið þegar það er komið í hnút? Jú, með því að boða viðkomandi rekstraraðila á fund með bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins til að ræða málin og finna niðurstöðu sem allir geta verið sáttir við. Og niðurstaðan virðist vera sú að Sjálfstæðismenn hafa boðið viðkomandi að vera inni á lóð einkaaðila en vilja fá leyfisgjöld samt sem áður og jafnframt að heimila að tengja vagninn við vatns- og fráveitu. Þetta er gert þó að Sjálfstæðisflokkurinn í Hveragerði hafi verið alveg á móti því við vinnslu á reglunum að heimila að tengja matarvagna við vatns- og fráveitu og ekki ansað athugasemdum sem komu fram við vinnslu reglnanna. Þannig að fyrsta leyfið, sem er veitt til götu- og torgsölu samkvæmt nýsamþykktum reglum, brýtur gegn reglunum. Þó að undirritaður telji að veita eigi matarvögnum tengingu við vatns- og fráveitu þá á ekki að afgreiða málið svona. Það á að breyta reglunum en ekki fara fram hjá þeim. Þá sýna þessi vinnubrögð mjög vanþroskaða stjórnsýslu, þar sem pólitískir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins virðist hafa tekið málið úr venjubundnu ferli stjórnsýslunnar, þ.e. leyfisveitingaferlinu, og haft áhrif á það til hliðar við ferlið.

Valdið er hjá íbúum
Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með viðbrögðum íbúa í Hveragerði í þessu matarvagnamáli. Þar hafa komið fram ólíkar skoðanir eins og gengur, en flestir hafa þó furðað sig á ógagnsæjum málarekstri bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Því er rétt að minna á að valdið er í raun hjá íbúum í öllum málum sveitarfélagsins, þó að þeir framselji valdið til bæjarfulltrúa á milli kosninga. Það er því íbúa að veita ríkjandi meirihluta aðhald á hverjum tíma. Það er líka íbúa að kjósa aðila í sveitarstjórn sem fylgja leikreglum stjórnsýslunnar og viðhafa gagnsæi í sínum verkum, fulltrúa sem taka ákvarðanir með almannahagsmuni að leiðarljósi og byggi þær ákvarðanir á jafnræði. Næst er kosið til sveitarstjórnar í Hveragerði í maí árið 2022.

Njörður Sigurðsson, bæjarfulltrúi Okkar Hveragerðis

Facebook ummæli